Fékk símtal frá Guðlaugi

Þröstur Leó Gunnarsson.
Þröstur Leó Gunnarsson. mbl.is/Eggert

Þröstur Leó Gunnarsson leikari fékk símtal frá Guðlaugi Friðþórssyni eftir að hann lenti í sjóslysi fyrir vestan fyrir rúmum þremur árum. „Það var mjög dýrmætt símtal en Guðlaugur hefur, eins og ég, barist lengi í þessum öryggismálum sjómanna. Við áttum gott spjall og ákváðum að hittast við tækifæri. Ekki hefur orðið af því ennþá en vonandi gerist það fyrr en síðar. Saga Guðlaugs er auðvitað einstök.“ 

Þröstur greinir frá þessu í samtali í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Sem kunnugt er lék Þröstur í kvikmynd Baltasars Kormáks, Djúpinu, þar sem saga Guðlaugs er sögð. „Þetta var árið 2012 og ég gerði mér enga grein fyrir því þá að þremur árum síðar ætti ég sjálfur eftir að lenda í svipuðum aðstæðum. Ég synti að vísu ekki í land eins og Guðlaugur en margt var líkt með þessum slysum; þeir komust líka upp á kjölinn en ákváðu að reyna að synda í land þegar þeir áttuðu sig á því að engin hjálp var á leiðinni.“

Þröstur sérhæfir sig í fiskmeti og laxinn er í sérstöku …
Þröstur sérhæfir sig í fiskmeti og laxinn er í sérstöku uppáhaldi. Hann reykir sjálfur og grefur lax. Eggert Jóhannesson

Á leiðinni í land eftir björgunina fyrir vestan tók Þröstur ákvörðun um að fara aldrei aftur á sjó og nú hefur hann sagt starfi sínu í Þjóðleikhúsinu upp. Allt hangir þetta saman en Þröstur hefur glímt við kvíða eftir að hann lenti í slysinu. „Þetta var farið að bitna á vinnu minni í leikhúsinu og ég fann að ég ræð einfaldlega ekki við þetta lengur. Það fylgir því mikið álag að vera leikari, að þurfa stöðugt að standa sína plikt fyrir framan fjölda fólks, og þegar kvíði er í spilinu, eins og hjá mér, fer þetta alls ekki vel saman.“

Kornið sem fyllti mælinn var atvik í janúar síðastliðnum þegar Þröstur fékk kvíðakast í Þjóðleikhúsinu rétt fyrir sýningu. „Ég sat bara í stólnum í sminkinu og fann hvernig kvíðinn helltist allt í einu yfir mig. Á einni eða tveimur sekúndum skipti ég hreinlega um lit; varð grár í framan. Sminkan sá að ekki var allt með felldu og hringdi á sjúkrabíl sem flutti mig á spítala. Ég náði mér fljótt en áttaði mig eigi að síður á því að ég yrði að skipta um vettvang. Leikhúsið væri ekki lengur fyrir mig.“

Gestakokkur á hóteli

 Farmtíðin er óskrifað blað en í augnablikinu er Þröstur gestakokkur á hótelinu Hlemmur Square í Reykjavík. Hann var fyrst gestakokkur þar snemma í sumar og kom aftur til starfa fyrir rúmri viku og mun gegna sama hlutverki fram að mánaðamótum eða svo.

Spurður hvernig þetta hafi komið til kveðst Þröstur hafa kynnst Klaus Ortlieb hótelstjóra og boðið honum í mat. Hótelstjóranum þýska líkaði svo vel að hann kom aftur. Og aftur. „Raunar fannst honum maturinn minn svo góður að hann hvatti mig til að opna veitingastað. Það þótti mér heldur róttæk hugmynd en þegar kokkurinn hérna á Hlemmur Square fór í frí í sumar bauð Klaus mér að leysa hann af í tvær vikur. Ég ákvað að slá til og það gekk bara ágætlega. Alla vega er ég kominn hingað aftur.“

Þröstur í einu af sínum frægustu hlutverkum; sem Jón Leifs …
Þröstur í einu af sínum frægustu hlutverkum; sem Jón Leifs í Tári úr steini eftir Hilmar Oddsson sem frumsýnd var 1995. Með honum er Bergþóra Aradóttir sem lék Líf, dóttur Jóns.

Þröstur hefur alla tíð haft yndi af matseld. „Ég hef alltaf eldað mikið; ætli hlutfallið sé ekki svona 80-90% á heimilinu. Mér finnst líka gaman að gera tilraunir í eldhúsinu með margvíslegt hráefni. Þegar ég var á sjónum hirti ég alls konar tegundir, til dæmis sólkola og rauðsprettu sem ég fyllti til dæmis með sveppum, beikoni og jafnvel reyktum laxi.“

Hann veit fátt skemmtilegra en að bjóða fólki í mat, bæði heim til sín og svo hefur hann alltaf haldið stóra veislu í fjöruborðinu á Bíldudal einu sinni til tvisvar á sumri. Þar koma gjarnan saman tugir manna og mest hefur fjöldinn farið í 120.

Það er fleira en lax á matseðlinum á Hlemmur Square. Þröstur nefnir þorsk og rauðsprettu og svo gamla góða „hrygginn hennar mömmu“. „Hann klikkar aldrei.“ Hann er sumsé í kjötinu líka.

Hann reynir að blanda geði við matargersti hótelsins eftir föngum og segir skondna sögu af sex Skotum sem fréttu að kokkurinn á hótelinu hefði leikið í Trainspotting. „Fram með manninn, undir eins!“ gall í þeim. „Þegar í ljós kom að ég hafði ekki leikið í kvikmyndinni, heldur bara íslensku sviðsuppfærslunni í Loftkastalanum, misstu þeir fljótt áhugann. Þótti það heldur rýrt.“

Hann reiknar ekki með að kokka lengur en þessar fjórar vikur á hótelinu og sér sig ekki fyrir sér í þessu hlutverki í framtíðinni. „Ekki sem aðalkarlinn í eldhúsinu. Ég væri frekar til í að vera aðstoðarmaður hjá öðrum sem kann meira en ég. Bestu kokkarnir okkar eru svo miklir listamenn; diskarnir sem þeir bera fram margir hverjir.“

Þröstur er 57 ára gamall og stundum er sagt að erfiðara sé að söðla um í lífinu eftir fimmtugt. Hann blæs á þær vangaveltur, sposkur á svip. „Blessaður vertu, aldurinn er engin fyrirstaða; mér finnst ég ennþá vera tvítugur!“ 

Nánar er rætt við Þröst í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 
 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn fyrir skipulagningu heimilisins sem setið hefur á hakanum undanfarna mánuði. Forðastu að gera of mikið, þú átt það til að fara yfir strikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Sarah Morgan
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn fyrir skipulagningu heimilisins sem setið hefur á hakanum undanfarna mánuði. Forðastu að gera of mikið, þú átt það til að fara yfir strikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Sarah Morgan
5
Torill Thorup