„Framtíð landsins verður ákveðin í þessari viku. Kosningar skipta ekki bara máli þegar kosið er um forseta. Þessar kosningar gætu verið þær mikilvægustu á lífsleiðinni.“
Þetta er meðal hvatningarorða Leonardo DiCaprio til bandarískra kjósenda í myndskeiði þar sem stórleikararnir Dicaprio og Brad Pitt sameina krafta sína. Þingkosningar eru í landinu á morgun og fara þær fram á miðju kjörtímabili forseta og vilja DiCaprio og Pitt vekja athygli á því að það er ekki síður mikilvægara að kjósa í almennum kosningum en forsetakosningum.
Á morgun verður kosið um 35 þingsæti af 100 í öldungadeildinni, öll 435 þingsætin í fulltrúadeildinni, 39 ríkisstjórastóla og fjölmarga bæjar- og héraðsstjórastóla.
Stjórnmálaskýrendur eru sammála um það að kjörsókn muni ráða úrslitum. Kosningaáhuginn vestra er óvenjumikill miðað við kosningar á miðju kjörtímabili og er þátttaka í utankjörfundaratkvæðagreiðslum langt yfir meðallagi. Í lok október höfðu yfir 24 milljónir greitt atkvæði utan kjörfundar, samanborið við 13 milljónir á sama tíma árið 2014.
Í myndskeiðinu, sem sjá má hér að neðan, hvetja Pitt og DiCaprio kjósendur til að láta rödd sína heyrast, þar sem mikið er í húfi. Nefna þeir sem dæmi byssulöggjöf, stefnu í innflytjendamálum, aðgang að hreinu vatni og lofti og heilbrigðisþjónustu.