Hera Björk og Hatari komust áfram í úrslitakeppni Söngvakeppninnar 2019 í kvöld þegar fyrri undanúrslit fóru fram í Háskólabíói. Valið var í höndum áhorfenda sem greiddu atkvæði með símakosningu.
Hera Björk flutti lagið Eitt andartak sem hún samdi ásamt Örlygi Smára og Valgeiri Magnússyni. Hljómsveitin Hatari flutti lagið Hatrið mun sigra sem er samið af liðsmönnum hljómsveitarinnar.
Alls tóku fimm lög þátt í keppninni og komust tvö þeirra áfram. Sama fyrirkomulag verður að viku liðinni þegar önnur fimm lög keppa.
Úrslitakvöldið verður í Laugardalshöll 2. mars og þá verður ljóst hvert framlag Íslendinga til Eurovision-söngvakeppninnar verður sem fer fram í Tel Aviv í Ísrael í maí.