Úkraína hefur dregið þátttöku sína í Eurovision í Ísrael í vor til baka. Framlag Úkraínu til keppninnar var valið síðustu helgi og stóð söngkonan Maruv uppi sem sigurvegari með lagið Siren Song.
Þær fregnir bárust síðan í gær að Maruv yrði ekki fulltrúi þjóðarinnar eftir allt saman þar sem hún neitaði að skrifa undir samning þar sem hún þurfti að uppfylla ýmis skilyrði sem fulltrúi Úkraínu í keppninni. Maruv sagðist ekki vilja vera notuð í pólitískum tilgangi.
Ísak Pálmason, Eurovision-aðdáandi og félagi í Félagi áhugafólks um Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (FÁSES), ræddi undankeppnina í Úkraínu hjá Loga og Huldu á K100 í gær og hlusta má á það hér.
Í tilkynningu frá Ríkissjónvarpi Úkraínu segir að Úkraína hafni því að taka þátt í Eurovision í ár. Frekari skýringar eru ekki veittar.
Maruv sigraði örugglega í undankeppninni og hefur lag hennar notið mikilla vinsælda í heimalandinu. Nokkrir stjórnmálamenn hafa hins vegar gagnrýnt Maruv fyrir að hafa komið fram á tónleikum í Rússlandi og sagði menningarmálaráðherra landsins að aðeins föðurlandsvinir mættu koma fram fyrir hönd Úkraínu.