„Mér finnst allt í lagi að taka séns“

Reynir Þór Eggertsson fylgist með Söngvakeppninni frá Finnlandi.
Reynir Þór Eggertsson fylgist með Söngvakeppninni frá Finnlandi. Mynd/Magasínið

„Ég held að það væri langskynsamlegast fyrir okkur að senda Hatara út,“ segir Eurovision-sérfræðingurinn Reynir Þór Eggertsson, eða Júró-Reynir eins og hann hefur oft verið kallaður. Úrslit Söngvakeppninnar fara fram á laugardagskvöldið.

Eins og áður hefur komið fram keppast fimm lög um að verða fulltrúi Íslands í Eurovision-keppninni sem fram fer í Ísrael 14. - 18. maí:

Hvað ef ég get ekki elskað  Friðrik Ómar
Mama said — Krist­ina Bær­endsen
Fig­ht­ing for love — Tara Mo­bee
Moving on — Hera Björk
Hatrið mun sigra — Hat­ari

Reynir býr í Finnlandi en fylgist með keppninni „úr fjarska“. Hann segir hlæjandi að netið drífi alla leið til Finnlands. Að hans mati er ekkert laganna í úrslitum slakt og hann býst við spennandi keppni um hvaða lag hreppir hnossið.

Hatari, Hera Björk eða Friðrik Ómar?

Sérfræðingurinn er hrifnastur af lagi Hatara. „Mér finnst það flott lag, sérstaklega gerir viðlagið mikið fyrir lagið. Síðan eru Hera Björk og Friðrik Ómar með flottar ballöður. Það er þannig með ballöður að maður veit aldrei hvernig þeim mun ganga, það er alltaf flytjandinn sem verður að keyra þær í gegn,“ segir Reynir sem telur að það séu meiri líkur á því að Hatari veki athygli í Ísrael.

Reynir er hrifnastur af lagi Hatara.
Reynir er hrifnastur af lagi Hatara. mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Reynir segir að öruggasta leiðin fyrir íslenska atriðið til að komast í úrslit Eurovision, í fyrsta skipti frá árinu 2014, sé að senda Hatara út. „Ég er ekki að draga úr því að Hera Björk og Friðrik Ómar eru það góðir flytjendur og það reyndir flytjendur að þau gætu alveg náð að heilla fólk,“ segir Reynir en bæði hafa Friðrik Ómar og Hera Björk áður keppt í Eurovision.

„Þau eiga líka bæði vísan stuðning aðdáanda sinna en þú vinnur ekki keppnina bara út á þessa hörðustu aðdáendur,“ segir Reynir og tekur undir með blaðamanni að eflaust kroppi þau atkvæði frá hvort öðru á laugardaginn:

Að vissu leyti sigla þau á sömu mið en aftur á móti er spurning ef annað þeirra kemst í úrslitin hvað þau sem hafa kosið hitt gera þá. Hvort þau sameinist á móti Hatara til dæmis.

Vill senda lag sem hverfur ekki í fjöldann

Reynir telur að ný regla þess efnis að atkvæði úr fyrri umferð fylgir lögunum tveimur í einvígið gæti skipt sköpum. Alþjóðleg dómnefnd hefur helmingsvægi á móti símakosningu almennings.

Eins og áður segir hefur árangur Íslands undanfarin ár ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir. Reynir segir að í ljósi reynslunnar sé allt í lagi að taka séns og senda út lag sem hverfur ekki í fjöldann.

Friðrik Ómar og Hera Björk hafa bæði tekið þátt í …
Friðrik Ómar og Hera Björk hafa bæði tekið þátt í Eurovision áður. Samsett mynd

„Mér finnst allt í lagi að taka séns. Við höfum verið að velja flytjendur frekar en sterkustu lögin,“ segir Reynir og hlær þegar blaðamaður minnist á að enn sé verið að tala um að lög Friðriks Dórs og Daða Freys hefðu kannski átt að fara út fyrir Íslands hönd.

„Það kom öllum á óvart hversu illa Svölu gekk,“ segir Reynir en Svala Björgvinsdóttir tók þátt í Eurovision í Úkraínu fyrir tveimur árum. „Maður getur ekkert sagt, eitthvað náði ekki í gegn. Svala malaði þá keppni en Daði var með voða skemmtilegt öðruvísi lag en maður veit aldrei hverju það hefði skilað.

Óþægilegt að keppnin sé haldin í Ísrael

Tölu­vert hef­ur verið rætt og ritað um það að keppn­in sé hald­in í Ísra­el vegna mannréttindabrota þeirra gegn Palestínumönnum. Reyni þykir óþægilegt að keppnin sé haldin þar.

„Mér hefði þótt gott ef RÚV hefði ákveðið að vera ekki með en á meðan Ísrael fær að keppa í Eurovision hljóta þeir að mega vinna keppnina líka,“ segir Reynir. Hann segist vera á þeirri skoðun að helst eigi að vinna gegn því að keppnin sé notuð sem skrautfjöður, annaðhvort fyrir einræðisherra eða ríkisstjórnir sem kúga hluta af íbúum.

„Aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku var komið af með allsherjar alþjóðlegri sniðgöngu á Suður-Afríku. Það dugði. Af hverju ætti það ekki að duga á önnur lönd líka? Um leið og þú ert kominn til einhvers ríkis og í einhverja keppni þá er það alltaf fjöður í hatt stjórnvalda, alveg sama hvað þú reynir að segja. Þau lönd sem eru með í keppninni hljóta að mega vinna hana.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert traustur vinur og þeir sem umgangast þig vita það og einnig að þú gleymir ekki því sem gert er á þinn hlut eða þinna. Skrifaðu bestu hugmyndirnar þínar niður og farðu eftir þeim.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Jenny Colgan
3
Kathryn Hughes
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert traustur vinur og þeir sem umgangast þig vita það og einnig að þú gleymir ekki því sem gert er á þinn hlut eða þinna. Skrifaðu bestu hugmyndirnar þínar niður og farðu eftir þeim.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Unnur Lilja Aradóttir
2
Jenny Colgan
3
Kathryn Hughes
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Torill Thorup