Ljóst er að fjöllistahópurinn Hatari mun aldrei komast á stóra sviðið í Tel Aviv í Ísrael ef ísraelsku samtökin Shurat HaDin fá sínu framgengt. Samtökin hafa farið fram á það við stjórnvöld landsins að Hatara verði meinaður aðgangur að Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Þau krefjast þess við innanríkisráðherrann Aryeh Deri að hljómsveitinni verði ekki hleypt inn í landið vegna gagnrýni hennar á ástand mála í Ísrael og vegna yfirlýsinga um að hljómsveitin muni nýta tíma sinn á stóra sviðinu til að mótmæla og lýsa yfir stuðningi við Palestínufólk.
Þetta kemur fram á enskum vef mest lesna fréttablaðs Ísraels, Ynetnews.
Á vef Shurat Hadin kemur fram að samtökin berjist gegn hryðjuverkum og standi vörð um réttindi gyðinga um heim allan. Þá segjast þau staðráðin í að vernda ísraelska ríkið með því að verjast lögsóknum, berjast gegn akademískum og efnahagslegum sniðgönguaðgerðum og með því að bjóða þeim birginn sem vilja grafa undan lögmæti ísraelska ríkisins.
„Okkur bárust upplýsingar um að hljómsveitin sem kemur fram fyrir Íslands hönd styðji sniðgöngu Ísraels,“ sagði lögfræðingurinn og forvígiskona Shurat HaDin, Nitsana Darshan-Leitner. Hún segir að síðasta sumar hafi hljómsveitin skrifað undir stuðningsyfirlýsingu þess efnis að Ísland sniðgengi söngvakeppnina í Tel Aviv í Ísrael. Eftir að hafa verið valin sem framlag Íslands hafi hljómsveitin tilkynnt að hún ætlaði sér að mótmæla Ísrael á sviðinu, þrátt fyrir að það gengi í berhögg við reglur keppninnar.
„Samkvæmt lögum um forvarnir gegn því að ísraelska ríkið bíði hnekki vegna sniðgönguaðgerða (e. Law for prevention of damage to state of Israel through boycott) fær manneskja sem er ekki ísraelskur ríkisborgari eða hefur leyfi um varanlega búsetu í Ísrael ekki vegabréfsáritun eða búsetuleyfi ef hún, eða samtök eða félag sem hún starfar fyrir, hefur opinberlega kallað eftir því að Ísrael sé sniðgengið,“ sagði Darshan-Leitner.
Talsmaður innanríkisráðherra sagði að samráð verði haft meðal stjórnvalda um beiðni Shurat HaDin, þegar hún hefur borist ráðuneytinu. „Málið verður tekið til skoðunar þegar bréfið berst,“ sagði talsmaðurinn og bætti við: „Eins og lög kveða á um mun innanríkisráðherra taka ákvörðun þegar hann hefur fengið álit frá öryggismálaráðuneytinu.“