Samsærið um hnattlaga jörð

Logi Bergmann.
Logi Bergmann.

„Við erum að tala um fólk sem krafttrúir því að jörðin sé pönnukökuflöt og það sé í alvöru gríðarlegt samsæri vísindamanna á bak við þetta allt,“ skrifar Logi Bergmann í pistli í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Pistilinn í heild má lesa hér fyrir neðan:

„Til er fólk sem trúir því að það eigi ekki að bólusetja börnin sín. Það sé blátt áfram stórhættulegt og því fylgi einhverfa, ýmsir sjúkdómar og jafnvel dauði. Þetta hefur orðið til þess að einhverjir hafa hætt við að bólusetja börn og þannig skapað hættu fyrir aðra.

Þetta fólk trúir því að bólusetningar séu eitt allsherjar samsæri lyfjafyrirtækja sem hafi safnað til sín vísindamönnum í áratugi til að halda fram þessari lygi til að geta grætt á bóluefnum.

Í vikunni birtist merkileg frétt frá Bandaríkjunum. Í könnun sem samtök bandarískra geðlækna gerðu kom loks fram fylgni. Kannski ekki sú sem þeir sem á þetta trúa höfðu vonast eftir. Niðurstaðan er að þeir sem trúa þessu eru líklegri til að stökkva á aðrar samsæriskenningar. Þeir trúa því að Díana prinsessa hafi verið myrt, að árásirnar á tvíburaturnana hafi verið sviðsettar og maðurinn hafi aldrei stigið fæti á tunglið. Þeir trúa því að slatti af heimsfrægum poppurum hafi dáið og í þeirra stað hafi verið settir inn tvífarar og að á Íslandi sé vandlega skipulagt djúpríki sem öllu ráði.

Þetta fólk er alveg til. Og kenningarnar eru endalausar. Ein enn birtist í grein í vikunni, þar sem greinarhöfundur sagði frá því að CIA hefði handvalið Mark Zuckerberg til að þykjast hafa fundið upp Facebook. Í raun væri það CIA sem stjórnaði því og öllu sem þar gerist. „Þetta er náttúrulega risafrétt en falsmiðlar þegja.“

Einmitt.

Það er til hópur sem trúir því að jörðin sé flöt. Við erum ekki að tala um fólk sem finnst skrýtið að jörðin sé hnöttur, eða finnst það merkileg pæling að geimurinn sé á fullri ferð. Við erum að tala um fólk sem krafttrúir því að jörðin sé pönnukökuflöt og það sé í alvöru gríðarlegt samsæri vísindamanna á bak við þetta allt. Fyrst og fremst til að halda fólki fáfróðu og reyna að ljúga að því alls konar fáránlegum hlutum eins og að risaeðlur hafi verið til, þróunarkenningunni og öðru bjánalegu bulli.

Það er fróðlegt að hlusta á þetta fólk. Það eru til dæmis ekki vísindamenn í hópi þeirra sem trúa því að jörðin sé flöt. Skýringin er einföld: „Það er vegna þess að þegar þú hefur náð ákveðnu stigi í menntun, þá hefur menntakerfið bara eignast þig. Þá máttu ekki trúa þessu.“ Þetta segir einn helsti forsprakki hópsins í heimildarmyndinni Behind the Curve sem hægt er að sjá á Netflix. Hann hafnar því að jörðin sé hnöttótt því hann sér háhýsi í tveggja kílómetra fjarlægð.

Það er reyndar heillandi að sjá hvernig þetta fólk trúir því að jörðin sé flöt en samt á mismunandi hátt. Sumir halda að það sé risastór skál yfir okkur og við séum föst í einhverjum svakalegum Truman Show-heimi. Aðrir að jörðin sé óendanleg og sumir að Norðurpóllinn sé í raun ekki til heldur sé hann íshringur í kringum hafið. Bara svona til að halda öllu á sínum stað. Auðvitað eru engar stjörnur á himni og engar plánetur.

Þetta hljómar fyndið. Og er það á vissan hátt. En þetta er líka bæði dapurlegt og alvarlegt. Rök gegn rökleysunni eru yfirleitt sama mantran: Samsæri, yfirhylming, falsfréttir og vísindamenn sem hafa selt sálu sína.

Flattrúarmenn segja að þeir skipti milljónum. Það eru mögulega ýkjur. En jafnvel þótt þeir séu bara tíu þúsund um allan heim þá er það vísbending um að við séum að gera eitthvað vitlaust. Og það eru til miklu fleiri hópar sem falla undir lögmál þeirra sem trúa á flata jörð. Það er eitthvað til að hafa áhyggjur af.

Kannski er þetta birtingarmynd á aukinni þolinmæði fyrir sjónarmiðum annarra. Eða kannski er þetta að einhverju leyti afsprengi skoðanasílóanna sem hægt er búa í á netinu, þar sem dugir að finna nógu marga sem eru sammála þér til þess að þú hafir rétt fyrir þér. Leið þessa fólks virðist alltaf vera sú sama. Að ákveða eitthvað og grípa svo allt sem styður það en hafna öllu öðru. Þar með er niðurstaðan komin. Við megum hins vegar ekki gleyma því að efasemdir og afneitun er ekki það sama. Og enn hefur engum tekist að sigla út af endimörkum jarðar.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar