Sir Mick Jagger, söngvari Rolling Stones, er nú á batavegi eftir hafa undirgengist hjartaaðgerð í dag. Jagger greindi frá því á Twitter í dag að „hann sé á batavegi“ og sér „líði miklu betur“.
Söngvarinn, sem er 75 ára, þakkaði því næst starfsfólki sjúkrahússins í New York fyrir „frábært starf“, sem og aðdáendum sínum fyrir öll skilaboðinn.
Thank you everyone for all your messages of support, I’m feeling much better now and on the mend - and also a huge thank you to all the hospital staff for doing a superb job.
— Mick Jagger (@MickJagger) April 5, 2019
Greint var frá því fyrr í vikunni að hljómsveitin hefði þurft að fresta No Filter-tónleikaferðalagi sínu þar sem læknar hefðu ráðlagt Jagger að láta skipta um hjartaloku.
Tónleikaferðalagið átti að hefjast í Miami 20. apríl og ljúka svo í Ontario í Kanada í lok júní og segir BBC hljómsveitina nú vinna að því að finna nýjar dagsetningar fyrir tónleikana.
Jagger hafði sjálfur áður beðið aðdáendur sveitarinnar afsökunar á því að tónleikaferðalaginu væri frestað og sagðist „eyðilagður“ yfir því.