Poppséníin sem flýðu sviðsljósið

Tónlistararfleifð Mark Hollis og Scott Walker er víðfeðm og merkileg.
Tónlistararfleifð Mark Hollis og Scott Walker er víðfeðm og merkileg. Ljósmynd/Samsett úr skjáskotum

Undanfarið hafa tveir stórmerkilegir tónlistarmenn yfirgefið jarðvist sína sem eiga margt sameiginlegt. Mark Hollis og Scott Walker fengu mikinn meðbyr í upphafi ferilsins en sögðu báðir skilið við sviðsljósið og fóru í vegferð þar sem engar málamiðlanir voru gerðar í leit að nýjum víddum í tónum.

Sagt hefur verið frá ferli þeirra beggja hér á mbl.is en hér verður rakið hvernig margt er sambærilegt með hvernig ævistarf þeirra í tónlist þróaðist.

Umfjöllun um Scott Walker sem lést 22. mars.

Áður hafði birst þessi grein um Mark Hollis sem lést 25. febrúar.

Neðst í greininni er svo að finna spilunarlista á Spotify með nokkrum vel völdum lögum úr smiðju tvímenninganna.

Einungis tólf ár voru á milli þeirra Hollis og Walker en þegar tónlistin sem eftir þá liggur er skoðuð myndu líklega flestir halda að aldursmunurinn væri mun meiri. Það helgast af því að Walker sló í gegn ungur með Walker Brothers en Hollis var rúmlega þrítugur þegar hljómsveit hans Talk Talk var á hátindi vinsælda sinna.

Popp eins og það gerist best 

Walker Brothers voru þríeyki og þeir voru búnir að reyna eitt og annað fyrir sér þegar Scott söng Burt Bacharach-lagið „Make It Easy On Yourself“ sem náði toppi breska vinsældalistans.

Poppið fullkomnaðist þó hjá sveitinni í „The Sun Ain't Gonna Shine Anymore“ þar sem barítónrödd Walkers passar fullkomnlega við tregafullan texta og klassíska sixtís-útsetningu í anda Spectors: Risastór strengjaheimur, epískar raddanir og Motown-skotinn hrynjandi þar sem himinn og jörð virðast eiga allt undir þessari þriggja mínútna popp-neglu.

Ef fólk sér ekki snilldina í þessu er frekari lestur líklega óþarfur.

Talk Talk með Hollis fremstan í flokki var einnig búin að vera starfandi um nokkurra ára skeið þegar poppjafnan gekk upp hjá þeim. Dínamíkin í þeirri sveit var vissulega af öðrum toga. Þar var um alvöruhljómsveit að ræða sem hafði eytt meiri tíma í að móta hljóm sinn og hugmyndafræði. Þrátt fyrir að toppa ekki vinsældalistana í Bandaríkjunum og á Bretlandi, sem skipta líklega mestu máli í alþjóðlegu samhengi, á sínum tíma er „It's My Life“ eins stórt popplag og þau verða og hefur vaxið í vinsældum eftir því sem tíminn líður. Hræðileg tökuútgáfa No Doubt, þeirrar afleitu hljómsveitar, á laginu hefur hjálpað til en lagið hefur fjórum sinnum náð á vinsældarlista í Bretlandi hæst í þrettánda sæti í tengslum við safnplötu sem kom út árið 1990.

Lagið er vangavelta um óendurgoldna ást, en með einfaldri speki um tilveruna sem var þrástef í textagerð Hollis. Fyrir utan hvað lagið er einfaldlega gott og vel samið er hljóðheimurinn afbragð. Synthahljómurinn er vel heppnaður og bassamelódíuna myndu flestir þekkja eina og sér. Spilakaflinn fyrir síðasta kórus gefur laginu mikið rými sem gengur ekki alltaf upp í poppi.

Það er deginum ljósara að með því að halda áfram slíkum lagasmíðum hefði sveitin getað tryggt sig í sessi sem stórt nafn í poppheiminum. Eitthvað svipað og Duran Duran eða Wham. Þó upphaflega útgáfan sé mögnuð er ástæða til að vekja athygli á þessum flutningi sveitarinnar í Montreaux árið 1986.

Ein líkindi sem má finna í smellum beggja er ákveðin alvara, þungar hugsanir sem finna farveg í grípandi en um leið dramatísku popplagi. Það er svo sem ekkert einstakt að popplög séu dramatísk en það er alls ekki alltaf sem tilfinningin er sönn og að hún endurómi hjá hlustendum jafnvel eftir að laginu lýkur. Eitthvað sem gerist bæði í verkum Hollis og Walker. 

Walker hamraði járnið á meðan það var heitt á sjöunda áratugnum og gaf út fjórar sólóplötur á árunum 1967-1969. Eins og var svo algengt á þessum tíma voru þær ekki alltaf heilsteypt verk enda var breiðskífan sem slík nýtt fyrirbæri sem listamenn voru rétt að byrja að þróa.

Á þessum plötum er þó ákveðinn þráður eða karakter og sum laganna eru algjörlega mögnuð, standast samanburð við hvaða listamann sem er. „Plastic Palace People“ af Scott 2 er eitt þeirra. Lagið er samið af Walker sjálfum sem var ekki alltaf raunin. Það er með ýktum kaflaskiptingum þar sem töktum er blandað saman, strengirnir skapa óraunverulegt andrúmsloft sem er svo ýkt í meðferð á rödd Walkers. Platan fór á toppinn í Bretlandi þar sem Walker var stórstjarna, engu minna elskaður en Bítlarnir samkvæmt póstskráningum í aðdáendaklúbba. Mikið vildi ég búa í heimi þar sem tónlist af þessu kaliberi væri sú vinsælasta.

Talk Talk fylgdu vinsældum sínum eftir með því að gefa út The Colour Of Spring árið 1986. Algjörlega mögnuð plata og ljóst að leitin að einhverjum sannleika í tónlistinni var það eina sem stýrði för hjá Hollis og félögum. Engu var skeytt um það hvernig uppbyggingin á lögunum væri. Á plötunni má heyra barnakóra, krefjandi þagnir, djassskotin sóló, skrýtnar talningar og svona mætti lengi telja. Allt er samt hnýtt saman af frábærri hljómsveitinni og tilfinningunni í rödd Hollis sem virðist hafa ferðast um langan veg þegar hún skilar sér í hlustirnar. Ótrúlegt stöff sem var og er algerlega einstakt. Ekki nóg með það, heldur seldist hún eins og heitar lummur, komst í 8. sæti breska vinsældalistans og náði hátt á listum víða í Evrópu líka, býsna gott miðað við músík sem er svo íhugul. 

„Living in another world“ var eitt vinsælasta lagið af plötunni og hér fyrir neðan má sjá og heyra magnaða útgáfu sveitarinnar af laginu í Montraux á hljómleikaferð sem farin var til að fylgja plötunni eftir og reyndist sú síðasta sem Talk Talk fór. Algjör synd af því að það eru sárafáar sveitir sem að mínu viti sem hafa náð að fullkomna list sína með þessum hætti og hafa eitthvað raunverulegt fram að færa. 

Holningin á Beth Gibbons í Portishead er óneitanlega svipuð og …
Holningin á Beth Gibbons í Portishead er óneitanlega svipuð og hjá Mark Hollis. Hvort sem það er tilviljun eða ekki þá er Talk Talk afar hátt metin á meðal tónlistarmanna í Bretlandi og Gibbons gaf út afbragðsplötu í samvinnu við Paul Webb, bassaleikara Talk Talk, í upphafi aldarinnar. Ljósmynd/Skjáskot af youtube.

Eftir að hafa verið á þessari fínu línu þar sem metnaðarfull og alvörugefin popptónlist náðu ákveðinni fullkomnun héldu Hollis og Walker enn lengra í þá átt þar sem fyrirséð var að færri hlustendur myndu fylgja þeim. Þetta skapaði togstreitu á milli tónlistarmannanna og útgáfufyrirtækja þeirra sem eru ágætlega skrásett. Talk Talk stóðu meðal annars í málaferlum til að halda yfirráðum yfir eigin sköpun. 

Scott Walker er hálfgerður huldumaður og erfitt er að átta sig á því að hversu miklu leyti sögurnar sem sagðar eru af honum séu sannar. Hollis gaf það út að hann ætti erfitt með að samræma eðlilegt fjölskyldulíf við tónleikaferðalögin og dró sig sífellt meira í hlé. 

Walker gaf út mun meira efni á sínum ferli og þar er gæðunum misjafnlega skipt. Endurkoma Walker bræðra með plötunni Nite Flights lyktar t.a.m. óneitanlega af fjárkröggum þeirra fóstbræðra, þó framlag Scotts sé afbragð. Titillagið er frábært og þarna er Walker enn að semja popptónlist sem er nokkuð sönn forminu.

Árið 1984 gaf hann út sólóplötuna Climate of Hunter en það var svo með plötunni Tilt (1995) sem Walker fór algerlega út í svo tormelta tónlist að ekki væri nokkur leið að flokka hana sem popp. Lagaformið er algjörlega farið út í hafsauga og útsetningarnar eru eftir því og eftir þetta hélt Walker sig meira og minna á þessum slóðum. Frægt er þegar hann var að leita að rétta hljóðinu sem átti að heyrast þegar svínsskrokkur er barinn með hnefunum. 

Þrátt fyrir að hafa fengið ágætis viðtökur við verkum sínum í þessum dúr, sem héldu áfram að koma út nánast fram til dauðadags, byggist arfleifð hans þó fyrst og fremst á því sem hann gerði á sjöunda og áttunda áratugnum. 

Í raun mætti segja það sama um Hollis ef eingöngu væri litið til spilanafjölda á lögum Talk Talk á Spotify og Youtube. Þar eru smellirnir frá fyrri hluta níunda áratugarins í aðalhlutverkum. Plöturnar The Spirit of Eden (1988) og Laughing Stock (1991) sem komu út í kjölfar mikillar velgengni geta í engum skilningi talist popp en hafa náð ótrúlegum vinsældum þrátt fyrir að vera löturhægar og tormeltar. Á meðal stórs hóps tónlistarunnenda eru þær einfaldlega það besta sem hefur verið gert í tónlist, tengingin sem fólk hefur við tónlistina er ótrúlega sterk. Gjarnan er talað um að þarna hafi síð-rokkið verið fundið upp sem hefur að sjálfsögðu skapað farveg fyrir margar frábærar hljómsveitir.  

Líklega væri endalaust hægt að leika sér að því að tengja saman ferla þessara tveggja listamanna. Barrokk-poppið og ný-rómantíkina, heimspekinga sem þeir vitnuðu í, barítónraddirnar og þemu í textagerð. Tónlistin sem eftir þá liggur er þó það sem öllu máli skiptir og hér fyrir neðan er að finna playlista á spotify sem ég setti saman vegna greinarinnar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér hættir til í hita augnabliksins að missa stjórn á skapi þínu, sem er ekki gott. Gakktu hægt um gleðinnar dyr og mundu að á morgun er nýr dagur með nýjum tækifærum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Unnur Lilja Aradóttir
3
Torill Thorup
4
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir