Jóhann Ólafsson
skrifar frá Tel Aviv
Hljómsveitin Hatari hefur nýlokið síðustu æfingu sinni í Expo-höllinni í Tel Aviv fyrir dómararennslið í kvöld. Sveitin negldi atriðið og brutust út fagnaðarlæti í blaðamannahöllinni þegar flutningi lauk.
Þó það sé erfitt að reyna að vera hlutlaus í þessum aðstæðum er ekki hægt að segja annað en að Hatari standi upp úr í fyrri undanriðlinum.
Sviðsframkoma Hatara var, eins og áður, til fyrirmyndar. BDSM-klæðnaðurinn var á sínum stað og mikið um eldsprengingar.
Söngur Matthíasar Tryggva Haraldssonar og Klemens Hannigan var kraftmikill og mjög góður. Ef þeir standa sig jafn vel í kvöld á dómararennslinu og á morgun í sjónvarpsútsendingunni hlýtur Ísland að fara í úrslit.