Framlag Íslands til Eurovision á ekki beinlínis upp á pallborðið hjá norska dagblaðinu Aftenposten sem telur lagið „Hatrið mun sigra“ með hljómsveitinni Hatara eitt af sjö verstu lögunum sem boðið er upp á í keppninni þetta árið.
Blaðamaður Aftenposten fjallar um málið í blaðinu í dag undir fyrirsögninni „Sjö verstu lögin“, en auk íslenska lagsins eru lög Portúgals, Norður-Makedóníu, Ástralíu, Lettlands, Finnlands og Þýskalands sögð á meðal þeirra verstu í keppninni.
Fram kemur í umsögninni um „Hatrið mun sigra“ að persónulega þyki blaðamanninum einkennilegt að veðja á slík skilaboð en Ísland hafi oft boðið upp á eitthvað... öðruvísi. Tónlistin minni á reiða, en á sama tíma dauflega, útgáfu af bandarísku hljómsveitinni Nine Inch Nails eða þýsku sveitinni Rammstein.
Þá segir blaðamaðurinn að hugsanlega kunni BDSM-klæðnaður Hatara að höfða til einhverra aðdáenda sveitarinnar en varla til breiðs hóps fólks.