Jóhann Ólafsson
skrifar frá Tel Aviv
Hljómsveitin Hatari virðist æ líklegri til þess að ná frábærum árangri í Eurovision-keppninni hér í Tel Aviv, ef eitthvað er að marka veðbanka. Sveitin hefur hækkað um fjögur sæti frá því í gær á síðunni Eurovisionworld sem safnar saman vinningslíkum hjá hinum ýmsu veðbönkum.
Veðbankar spá Íslandi núna sjötta sæti en 6% líkur eru taldar á því að Ísland vinni Eurovision í ár. Líkurnar voru 3% í gær.
Hollendingar eru enn taldir sigurstranglegastir og eru vinningslíkur þeirra 27%.
Annað lag úr undanriðli Íslands frá því í gær hefur skriðið upp listann en Ástralía er nú í þriðja sæti yfir sigurstranglegustu lögin.
Úrslit Eurovision fara fram á laugardagskvöldið en Hatari kemur þar fram í seinni hluta keppninnar.