Gísli Marteinn Baldursson, sjónvarpsmaður og Eurovision-þulur, segir að þeir starfsmenn Ríkisútvarpsins sem voru í Tel Aviv hefðu ekki samþykkt ætlanir Hatara um að veifa palestínska fánanum þegar hljómsveitin fagnaði stigagjöf í símakosningu á laugardagskvöld, hefðu þeir verið spurðir.
Þetta kemur fram í Facebook-færslu Gísla Marteins, þar sem hann fer yfir Eurovision-ævintýrið. Hann segir atriði Íslands í ár rammpólitískt. „í raun var hinn táknræni stuðningur við Palestínu mun ópólitískari yfirlýsing en atriðið sjálft. Palestína er fullvalda ríki sem við Íslendingar viðurkennum sem slíkt,“ skrifar Gísli Marteinn.
Þá segist hann verða mjög hissa ef EBU, samtök evrópskra sjónvarpsstöðva, taki harkalega á uppákomunni í ljósi fjölmargra dæma um þjóðfána annarra ríkja í keppninni og sömuleiðis yfirlýsingar Madonnu á sviðinu skömmu áður, þar sem dansari í hóp hennar skartaði palestínska fánanum á bakinu.
Gísli Marteinn er á sama tíma stoltur af íslenska hópnum og segir árangurinn ekkert annað en stórglæsilegan. Hann bendir á að Ísland hafi unnið símakosninguna í sínum riðli og lent í 6. sæti í símakosningunni á úrslitakvöldinu.
„Hinn góði árangur felst þó ekki síst í framgöngu Hatara, bæði á sviðinu og utan þess. Þau sögðust ætla að nýta sér dagskrárvaldið og gerðu það með vaxtavöxtum. Stærstu og virtustu fjölmiðlar heims hafa fjallað um Hatara og skilaboð þeirra,“ skrifar Gísli Marteinn.
Hann er nú á heimleið ásamt íslenska hópnum, sem mun lenda í Keflavík um klukkan 23 í kvöld, og segist Gísli Marteinn vera glaður og þakklátur fyrir að hafa tekið þátt í þessari sigurför. Þá þakkar hann einnig fyrir góð viðbrögð við pabbabröndurum í útsendingunni á laugardag.