Bubbi Morthens kom óvænt fram á Skólavörðustíg nú fyrir skömmu og spilaði titillag nýjustu plötu sinnar, Regnbogans stræti. Engin tilviljun ræður því að Skólavörðustígur varð fyrir valinu hjá Bubba því fyrr í sumar var samþykkt að mála götuna varanlega í regnbogalitum, milli Bergstaðastrætis og Laugavegar.
Að sögn Söndru Barilli, verkefnastjóra hjá Öldu Music sem gefur plötuna út, ákvað Bubbi að spila þarna einnig í tilefni hinsegin daganna sem lauk um síðustu helgi. Hann spilaði einmitt á opnunarhátíð þeirra í Háskólabíói fyrr í mánuðinum.
Tillaga um að mála eina götu í borginni í regnbogalitum var lögð fram í júní, í sama mánuði og 50 ár voru liðin frá Stonewall-uppreisninni í New York, sem markaði þáttaskil í réttindabaráttu hinsegin fólks.