Eliza Reid, forsetafrú Íslands, tók á móti Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna og varaforsetafrúnni Karen Pence í Höfða í dag íklædd hvítri buxnadragt.
Regnbogalitt armband sem forsetafrúin bar á fundinum hefur þegar vakið athygli, en mögulega fól hvíta dragtin ekki minni skilaboð í sér. Hvíti liturinn á sér nefnilega sögu sem litur valdeflingar kvenna allt frá tímum súffragettanna og nú síðast hafa þingkonur bandaríska demókrataflokksins skartað hvítu á völdum stundum í þinginu.
Chicago Tribune gerði hvíta litnum skil er Donald Trump Bandaríkjaforseti flutti setningarræðu þingsins í febrúar á þessu ári. Þá skildi litarmunurinn kynin að. Karlarnir klæddust svörtum jakkafötum en konurnar í fulltrúadeild þingsins klæddust hvítu og drógu þannig upp mynd samheldni um leið og þær vottuðu súffragettunum virðingu sína og glöddust yfir eigin afrekum.
Vefurinn AnOther fjallaði einnig um það í janúar á þessu ári er Alexandria Ocasio-Cortez klæddist hvítri buxnadragt er hún settist á þing, hvernig hvíti liturinn varð táknmynd samstöðu kvenna.
Ocasio-Cortez var við þetta tækifæri yngsta konan sem kjörin hefur verið á þing í allri sögu Bandaríkjanna. „Ég klæddist hvítu í dag til að heiðra konurnar sem komu á undan mér og fyrir konur framtíðar,“ skrifaði hún á instagramsíðu sinni við þetta tækifæri.
Með litavalinu, segir AnOther, „stillti hún sér upp með langri sögu kvenna sem hafa valið litinn sem tákn um pólitíska andstöðu, allt aftur til bresku súffragettanna við upphaf 20. aldar“.
Nýlegir atburðir hafa að sögn miðilsins sýnt fram á pólitísk áhrif þess að klæðast eingöngu einum lit. Vísar blaðið þar til Time's Up-hreyfingarinnar þegar leikkonur, leikstjórar og framleiðendur klæddust öllu svörtu til að beina athygli að kynferðisáreitninni og misrétti milli kynjanna. Að sama skapi hafi frönsku „gulvestungarnir“ vakið athygli á málstað sínum og samheldni með gula litnum.
Hvítt var hins vegar sá litur sem súffragetturnar völdu sér. Upphaflega varð hvíti liturinn fyrir valinu vegna þess hve lítið áberandi hann var, en síðar varð hann að tákni baráttunnar.
Síðar á 20. öldinni og á þeirri 21. hafa konur tekið að velja hvíta litinn sem tákn um systralag og samstöðu og um leið sem vísun í hvað hefur áunnist frá því súffragetturnar börðust fyrir kosningaréttinum.
AnOther segir að í pólitískri og menningalegri samtímasögu hafi margar konur kosið að klæðast hvítu sem tákni um valdeflingu á mikilvægum stundum. Liturinn hefur enda lengi verið tengdur við nýtt upphaf og því hafa konur í valdastöðum klæðst hvítu til að kalla fram styrk og samstöðu með málstað súffragettanna.
Áður en Eliza klæddist hvítu dragtinni í dag og Ocasio-Cortez í janúar má nefna að árið 1969 klæddist Shirley Chisholm hvítu er hún varð fyrst svartra kvenna til að ná kjöri á Bandaríkjaþing. Hún valdi líka hvíta litinn þremur árum síðar er hún tilkynnti að hún ætlaði að gefa kost á sér til forseta. „Ég er ekki frambjóðandi svartra í Bandaríkjunum, þó að ég sé svört og stolt af því. Ég er ekki frambjóðandi kvennahreyfingarinnar í þessu landi þó að ég sé kona og jafn stolt af því. Ég er frambjóðandi fólksins og vera mín fyrir framan ykkur táknar nýtt tímabil í bandarískri stjórnmálasögu,“ sagði Chisholm við þetta tækifæri.
Árið 1984 klæddist Geraldine Ferraro hvítri dragt og perlufesti er hún samþykkti útnefningu sína sem varaforsetaefni fyrst bandarískra kvenna.
Hillary Clinton fylgdi síðan í fótspor þeirra tveggja er hún klæddist ítrekað hvítri buxnadragt í kosningabaráttunni fyrir síðustu forsetakosningar og var hvíti liturinn einnig meðvitað val hjá Clinton er hún mætti í innsetningarathöfn Trumps sem hafði á endanum betur í forsetaslagnum.