Skrýtið starf að vera forsetafrú

Eliza Reid forsetafrú Íslands, flytur hér erindi á friðarráðstefnu.
Eliza Reid forsetafrú Íslands, flytur hér erindi á friðarráðstefnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eliza Reid, forsetafrú Íslands, fjallar í grein sem birtist í New York Times í dag um hlutverk sitt sem forsetafrú. Starf sem hún segir skrýtið og veltir upp hvort hún með hlutverki sínu styðji ómeðvitað við mýtuna um forsetafrúna sem mýkri hlið valdamikils eiginmanns.

„Sem forsetafrú þá er hver vinnudagur blessunarlega ólíkur og gleði þess að geta gefið eitthvað aftur til þjóðfélags sem tók mér opnum örmum fyrir 16 árum er ekki enn farin að dvína,“ skrifar Eliza í greininni. Sú þrautseiga vænting fylgi henni þó engu að síður líkt og öðrum forsetafrúm — að þær leiki hlutverk hins teprulega fylginautar.

Segir Eliza myndbandsupptöku sem Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, birti á Instagram í sumar af mökum þjóðarleiðtoga á fundi G7 ríkjanna í Biarritz í Frakklandi hafa vakið sér aulahroll.

Eiginkonur valdamanna stilla sér upp með brimbrettaköppum í Biarritz í …
Eiginkonur valdamanna stilla sér upp með brimbrettaköppum í Biarritz í sumar. Frá vinstri: Adele Malpass, eiginkona forstjóra Alþjóðabankans, Melania Trump, forsetafrú Bandaríkanna, Jenny Morrison eiginkona forsætisráðherra Ástralíu, Brigitte Macron forsetafrú Frakkklands, Cecilia Morel forsetafrú Chile, Malgorzata Tusk eiginkona forseta leiðtogaráðs ESB og Akie Abe, eiginkona forsætisráðherra Japan. AFP

Færsla Tusk vakti aulahroll

„Myndbandið sýndi Melaniu Trump, Brigitte Macron, Malgosia Tusk og Akie Abe — maka þeirra Trump Bandaríkjaforseta, Emmanuel Macron Frakklandsforseta, Tusk og Shinzo Abe forsætisráðherra Japan – horfa til sjávar í kjólum sem bærðust í vindinum,“ skrifar Eliza og rifjar upp að fyrirsögnin hafi verið „Léttari hlið máttarins“.

„Sem maki þjóðarhöfðingja þá vakti þessi Instagram færsla mér aulahroll. Það er miður að sjá sjálfstæðar og gáfaðar konur smækkaðar niður í leikmun, hverra tilvera felst í því að styðja stjórnmálastefnu eiginmanna sinna — að sjá þær fyrst og fremst lofaðar fyrir fataval sitt, eða eins og færsla Tusk gaf til kynna fyrir siðsamlegt og hófstillt hátterni. Getum við árið 2019 ekki gert betur en að gefa okkur að makar þjóðarleiðtoga hafi ekkert betra við tíma sinn að gera en að labba á eftir hinum helmingnum til að bragða á víni, fylgjast með þjóðdönsum og horfa á útsýnið á meðan að (nær eingöngu karlkyns) mótaðilar þeirra sjá um Alvarlegu Málin?“ spyr Eliza í grein sinni.

Segir hún myndbandið líka hafa vakið hana til hugsunar um það hvort að hún sjálf ali ómeðvitað á mýtunni um mýkri hlið valdamanns í þau skipti sem þau Guðni ferðist saman? Hvort að vera hennar feli eingöngu í sér að sýna að hann geti verið bæði leiðtogi og ástríkur fjölskyldufaðir?

Vissulega eigi nokkrir þjóðhöfðingjar karlkyn smaka, en þeir séu í fæstum tilfellum sýndir með sambærilegum hætti og í áðurnefndri Instagram færslu.

Eliza Reed forsetafrú Íslands, með Karen Pence, eiginkonu Mike Pence, …
Eliza Reed forsetafrú Íslands, með Karen Pence, eiginkonu Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna. mbl.is/​Hari

Er ekki handtaska mannsins míns

„Frá því að ég varð forsetafrú Íslands í ágúst 2016 hef ég glímt við mótsagnirnar sem felast í þessu óopinbera og óskilgreinda hlutverki,“ skrifar Eliza. Það veiti henni vissulega færi á að beina athygli að málum sem hún telji mikilvæg og að hitta áhugavert fólk og upplifa ógleymanlega hluti sem hún njóti.  Engu að síður sé staðan sú, jafnvel í framsæknu ríki á borð við Ísland, að það sé að finna gamaldags ályktanir um það hvað hún eigi að gera og hvernig hún eigi að haga sér sem brjóti gegn femínískum skoðunum sínum.

„Í stuttu máli sagt þá er það enn skrýtið að vera forsetafrú, jafnvel árið 2019.“ Segist Eliza þó reyna að fylgja eftir hugmyndum sínum um það hvernig hún vilji nútímavæða embætti forsetafrúar, m.a. með því að flytja ræður sem hún hafi samið sjálf þegar hún taki þátt í „makadagskrá“ í opinberum heimsóknum erlendis. Eins kjósi hún að taka þátt í pallborðsumræðum þar sem færi gefist á að sýna styrkleika Íslands.

„Engu að síður þá gremjast mér enn þau tilfelli þar sem vera mín er talin sjálfsögð frekar en að hennar sé óskað. Ég er ekki handtaska mannsins míns, sem má grípa í þegar hann hleypur út um dyrnar og stilla á upp hljóðlega við hlið hans við opinbera viðburði. (Vitanlega á hann enga handtösku, hann er með almennilega vasa á fötunum sínum sem geyma allt sem hann þarf. En það er efni í aðra umræðu),“ skrifar Eliza og kveðst enn finnast það óþægilegt þegar ókunnugt fólk tjáir sig um útlit hennar.

„Í gott sem hverri einustu ferð sem ég fer ein í sem forsetafrú er ég spurð hver sé að gæta fjögurra ungra barna okkar, rétt eins og ástríkur faðir þeirra beri engar foreldraskyldur. Og ef ég er spurð um starfsferil minn þá er það alltaf í þátíð, jafnvel þó að ég sinni enn miklu af minni launuðu vinnu. (Af hverju ætti ég að fá mér nýja vinnu bara af því að eiginmaður minn var kjörinn í aðra?),“ er spurningin sem Eliza lýkur grein sinni á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hugsanlegt er að þú verðir með hugmynd tengda tekjum og fjármálum á heilanum í dag. Gæfan er þér hliðholl í augnablikinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Hugsanlegt er að þú verðir með hugmynd tengda tekjum og fjármálum á heilanum í dag. Gæfan er þér hliðholl í augnablikinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir