Hafnarfjarðarbær hefur látið fjarlægja stjörnu sem var sett í gangstéttina fyrir framan Bæjarbíó til heiðurs tónlistarmanninum Björgvini Halldórssyni. Stjarnan var afhjúpuð með viðhöfn í sumar.
Greint er frá þessu í fundargerð bæjarráðs Hafnarfjarðar, sem fundaði í gær. Þar kemur fram að viðskiptaráðið í Hollywood í Kaliforníu hafi fengið veður af þessari athöfn og í bréfi, sem er dagsett 15. ágúst sl., er tekið fram að stjörnunni svipi mjög í útliti til þeirra sem er að finna á Frægðargötunni í Hollywood (e. Hollywood Walk of Fame). Þetta hafi því verið gert í heimildarleysi og þess krafist að bærinn láti af öllu slíku þegar í stað. Rúv greindi fyrst frá.
Björgvin segir í samtali við mbl.is að hann hafi aðeins heyrt af þessu fyrir nokkrum dögum. „Stjarnan þótti of lík Hollywood-stjörnunni og þess vegna var hún fjarlægð og henni breytt,“ vildi Björgin láta hafa eftir sér, en unnið er að því að setja upp nýja stjörnu með breyttu sniði.
Í svarbréfi bæjaryfirvalda, sem er dagsett 3. desember, er útskýrt hvernig hugmyndin kom til, þ.e. frá rekstraraðilum Bæjarbíós sem vildu heiðra íslenska tónlistarmenn. Þeir hafi viljað láta setja stjörnu í stéttina og hafi þurft að fá leyfi Hafnarfjarðarbæjar til þess. Bæjarráðið hafi tekið vel í þá hugmynd og samþykkt hana, en tekið er fram að aðeins ein stjarna hafi verið lögð í stéttina í júlí sl. þegar Björgvin var heiðraður.
Bæjarráðið segir að það hafi ekki verið ætlunin að notfæra sér skrásett vörumerki eða hugverkaréttindi í heimildarleysi eða brjóta gegn slíkum réttindum. Það hafi ekki heldur verið ætlun Bæjarbíós með gjörningnum.
Þó er tekið fram að umrætt vörumerki sé ekki skráð hér á landi samkvæmt íslenskum lögum. Bent er á að Ísland sé ekki hluti af Evrópusambandinu, heldur taki aðeins upp hluta regluverks ESB í gegnum EES-samninginn. Engin dómafordæmi séu því til staðar eða löggjöf sem tryggi réttindi viðskiptaráðsins hér á landi, þannig að það geti höfðað mál til að krefjast þess að notkun verði stöðvuð eða hægt að fara fram á bætur.
Bæjarráðið segir aftur á móti að það muni virða hugverkaréttindi viðskiptaráðsins og vilji ekki brjóta gegn þeim og því sé búið að fjarlægja stjörnu Björgvins.