Ríkissjónvarpið í Kanada, CBC, klippti út atriði með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, úr kvikmyndinni Home Alone 2: Lost in New York sem sýnd var í desember. Talsmaður CBC, Chuck Thompson, segir að myndin, sem er tvær klukkustundir að lengd, hafi verið stytt um 8 mínútur til þess að skapa rými fyrir auglýsingar. Hann segir að breytingarnar hafi verið gerðar árið 2014 eða áður en Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna. Þetta tengist ekki pólitík á nokkurn hátt.
Stuðningsmenn Trump hafa gagnrýnt mjög að hann skuli hafa verið klipptur úr myndinni, samkvæmt frétt BBC, en sonur hans, Donald Trump Jr, fjallar um þetta á Twitter í gær. Segir hann ákvörðun CBC vera lágkúrulega.