Áratugur ólgu og breytinga á enda

Jörðin séð úr geimnum. Gjarnan er talað um að fyrsta …
Jörðin séð úr geimnum. Gjarnan er talað um að fyrsta slíka myndin sem nefnist „Blue Marble“ eða bláa kúlan og var tekin árið 1972 sé sú mynd sem hefur fengið hvað mesta dreifingu á heimsvísu. Sjónarhornið breytti heimsmynd fólks og olli mikilli umhverfisvakningu á sínum tíma þar sem hægt var að sjá einangrun jarðar og viðkvæmni plánetunnar í nýju ljósi. Ljósmynd/AFP

Áratugir eru gjarnan dregnir saman þegar litið er í baksýnisspegilinn þar sem viðburðir og þróun lýsa tíðarandanum með hætti sem fólk tengir við. Sjöundi áratugurinn eða sexan er augljóst dæmi. Bítlarnir, hipparnir, mannréttindabarátta, geimferðir, svarthvítt sjónvarp og stúdentaóeirðir gera þessi ár lifandi í hugum flestra sama hvort þeir hafi verið á staðnum eða ekki. Hvernig verður litið á þetta tíu ára tímabil sem senn er á enda? Annan áratug tuttugustu og fyrstu aldarinnar. 

Það væri glapræði að ætla að taka saman áratuginn annars vegar á íslenskum og erlendum vettvangi. Hlutirnir eru svo tengdir, sítengdir, að sé Ísland tekið út fyrir sviga tapast allt samhengi. Fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra rammar áratuginn í raun nokkuð snyrtilega inn fyrir okkur þar sem verið er að reyna að koma hækjum undir viti borna umræðu í samfélaginu. Vandamálið er síður en svo séríslenskt en smæð mengisins dregur það svo skýrt fram. Allstaðar berjast hefðbundnir fjölmiðlar í bökkum eftir tilkomu snjallsíma undir lok síðasta áratugar.

Árið 2011 varð Apple að verðmætasta fyrirtæki heims eftir hraðann vöxt í kjölfar þess að iPhone síminn var settur á markað árið 2007. Þetta var auðvitað bara byrjunin. Þróunin kristallast þegar íslenskar stofnanir og opinber fyrirtæki veita skattfé í að auglýsa hjá fyrirtækjum í Kaliforníu, hvort sem það eru Facebook/Instagram eða Google/Youtube. Því er skiljanlegt að Evrópusambandið eyði nú miklu púðri í að setja reglur um skattgreiðslur fyrirtækjanna á svæðinu. Eitthvað sem fyrirtækin eru með svarta beltið í að forðast. Frakkar gera sér vonir um að aðgerðirnar myndu skila um 500 milljónum evra í ríkissjóð á ári.

Steve Jobs kynnir iPhone-snjallsímann seint á síðasta áratug. Tækið sem …
Steve Jobs kynnir iPhone-snjallsímann seint á síðasta áratug. Tækið sem breytti heiminum. Jobs sjálfur náði einungis að upplifa fyrstu ár snjallsímabyltingarinnar en hann lést úr krabbameini árið 2011. Ljósmynd/Tony Avelar

Áratugur samfélagsmiðlanna hófst með mikilli bjartsýni á lýðræðislega virkni þeirra. Fyrstu árin eftir tilkomu Twitter árið 2007 voru tístin um 100 milljónir á ársfjórðungi (2008). 2010 töldu þau 50 milljónir upp á hvern dag. Eflaust eru til einhver fín stærðfræðileg hugtök um slíkan vöxt en ég læt mér nægja að segja að hann sé sturlaður. Bjartsýnir byggðu því eðlilega vonir við að slíkt flæði á upplýsingum gæti verið banabiti illra alræðisafla. Arabíska vorinu fylgdumst við með úr öruggri fjarlægð og sáum fyrir okkur að nú myndi fólk í Egyptalandi, Sýrlandi og víðar öðlast grunnréttindin og frelsið sem við búum við. Bylting ætti að byggja mikið til á snjallsímum og Twitter. Í Sýrlandi kom áratugalangur vetur eftir vorið og ekki sér fyrir endann á honum. Í grófum dráttum má segja að sterk alræðisríki á svæðinu hafi náð að berja niður þessar uppreisnir í krafti auðlinda með afli og þöggun.

Árið 2012 urðu jarðarbúar 7 milljarðar og það sama ár urðu notendur Facebook fleiri en milljarður. Einn af hverjum sjö íbúum jarðar notaði á þessum tímapunkti hugbúnað hins 28 ára gamla Marks Zuckerbergs. Skráningar fyrirtækisins á hlutbréfamarkað þetta sama ár var því beðið með mikilli eftirvæntingu sem endurspeglaðist í þrútnum áætlunum um virði félagsins. Ljóst var að fyrirtækið þyrfti nú að afla sér tekna til að standa undir væntingum fjárfesta.

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, hefur þurft að halda uppi vörnum …
Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, hefur þurft að halda uppi vörnum fyrir fyrirtækið eftir að komið hefur í ljós hvernig það hefur farið með persónuupplýsingar. Ljósmynd/AFP

Upplýsingarnar sem Facebook hafði safnað um notendur sína reyndust eftirsótt verðmæti og breska ráðgjafarfyrirtækið Cambridge Analytica var eitt þeirra sem greiddi fyrir þær og nýtti til að móta stafræna kosningabaráttu skjólstæðinga sinna. Eftir nokkurra ára tímabil þar sem úrslit kosninga urðu ófyrirsjáanleg og einhver myndi segja furðuleg hefur komið í ljós hversu mikil áhrif samfélagsmiðlar hafa haft á framkvæmd lýðræðis. Falsfréttir reyndust eitt áhrifaríkasta tólið sem Cambridge Analytica hafði til að hafa áhrif á kjósendur sem voru að gera upp hug sinn og er eitt þeirra hugtaka sem skóp áratuginn.

Innsýn tæknirisanna í einkalíf og hugarheim fólks er mikil. Hvernig …
Innsýn tæknirisanna í einkalíf og hugarheim fólks er mikil. Hvernig þau nýta þessa innsýn er ein stærsta samfélagslega spurning samtímans. Efnahagsleg völd fyrirtækjanna eru einnig farin að hafa áhrif langt út fyrir Sílikondal. Ljósmynd/AFP Damien Meyer

Skilvirknin sem stórfyrirtækin hafa nú á sínu valdi til að hafa áhrif á notendur sína er umhugsunarverð. Nú kemur það fáum á óvart að snjallsíminn stingi upp á að þú farir á veitingastaðinn sem þú gekkst af tilviljun fram hjá í gær eða að þú kaupir vöruna sem bar á góma í einkasamtali í lokuðu rými. Þetta var ekki raunveruleikinn fyrir tíu árum síðan. Engan skyldi undra að auglýsingaféð leiti til þeirra sem hafa slík völd. Völd tæknirisanna eru orðin slík að samanburður við kaþólsku kirkjuna á miðöldum virðist ekki svo fjarlægur.  

Sítengingin hefur verið farvegur fyrir hverja byltinguna á fætur annarri sem hefst á # tákninu. Oftar en ekki færi þó líklega betur á því að nota lágstemmdari lýsingar en í tilfelli #metoo á það vel við. Frásagnir íslenskra kvenna af kynferðislegri áreitni og ofbeldi í öllum kimum samfélagsins í lok árs 2017 ollu miklum titringi og sársaukafullri sjálfsskoðun víða. Aftur er um að ræða alþjóðlegt fyrirbæri en upphafið má rekja til frásagna af ofbeldinu sem kvikmyndamógúllinn Harvey Weinstein komst upp með að beita í Hollywood um áratugaskeið. Trúlega verður #metoo ofarlega í huga þeirra sem hugsa tilbaka seinna meir og rifja upp tíðaranda áratugarins og því mun fylgja minning um þrútið andlitið á Weinstein.

Harvey Weinstein er orðinn að holdgervingi kynferðislegrar kúgunar.
Harvey Weinstein er orðinn að holdgervingi kynferðislegrar kúgunar. Ljósmynd/AFP

Ef fólk hugsar um LSD þegar það hugsar um sexuna og kókaín í áttunni mun það væntanlega tala um ópíóða þegar talað er um þann sem er að líða. Misnotkun lyfjanna hefur vaxið með miklum hraða síðastu fimmtán árin en víman sem fylgir notkuninni er afar sterk sem fólk verður fljótt háð. Faraldurinn hefur leikið Bandaríkjamenn illa og talið er að yfir hundrað manns láti lífið þar vestra á degi hverjum vegna faraldursins. Stórfyrirtæki eru byrjuð að greiða út himinháar sektir fyrir þátt sinn í faraldrinum og komið hefur í ljós að hið íslensk ættaða Actavis var stórtækt í framleiðslu og dreifingu á oxycodone á Bandaríkjamarkaði. Faraldurinn hefur auðvitað náð útbreiðslu hingað til lands og á síðasta ári létust 39 manns eftir lyfjatengda eitrun. Fleiri en nokkru sinni fyrr. 

Þetta er farinn að vera ansi þungur lestur og við erum ekki byrjuð að tala um loftslags- og umhverfismálin sem eru efst á lista flestra sem stærstu mál samtímans. Eftir mikinn umræðuþunga í og þrýsting vísindasamfélagsins þótti töluverður árangur hafa náðst þegar skrifað var undir Parísarsamkomulagið árið 2015. Aðgerðir áttu að fylgja markmiðum um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og þar af leiðandi hægja á hlýnun jarðar. Vonbrigðin voru því ekki síðri þegar Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti um að Bandaríkin myndu ekki virða samkomulagið. Stefnt er að útgöngu Bandaríkjanna úr samkomulaginu seint á næsta ári. Fréttastreymi fólks eru full af fréttum af öfgum í veðri og tilfinningin er sú að maður lesi sífellt oftar um þurrka, skógarelda, hitabylgjur, flóð og óveður.

Greta Thunberg er manneskja ársins hjá Time, sú yngsta sem …
Greta Thunberg er manneskja ársins hjá Time, sú yngsta sem hlotið hefur nafnbótina. Andlit Gretu er orðið að andliti baráttunnar fyrir aðgerðum í loftslagsmálum. Ljósmynd/Time

Barátta umhverfismeðvitaðra fyrir aðgerðum stökkbreyttist undir lok áratugarins þegar hún öðlaðist andlit. Greta Thunberg var rétt skriðin af leikskóla þegar áratugurinn hófst en ásjóna hennar er nú orðin íkónísk á heimsvísu. Hvað sem gerist er hún orðin að andliti baráttunnar svipað og Gandhi, Martin Luther King og Mandela voru á sínum tíma. Nýleg forsíða Time þar sem hún er valin manneskja ársins vitnar til um það. Erfitt er að sjá neinar breytingar verða á hennar sessi í samtalinu um loftslagsmál og miðað við fátið sem er komið á þá, sem taka ekki undir áhyggjur af ástandinu og eru þeim ósammála, eru áhrif hennar augljóslega mikil. Það er fátt jafn aumkunarvert og gamlir karlar sem úthúða Gretu. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ræðir við fréttamenn á Bessastöðum fimmta apríl …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson ræðir við fréttamenn á Bessastöðum fimmta apríl 2016. Þar tilkynnti hann forsetanum að rjúfa yrði þing þar sem ríkisstjórnin væri óstarfhæf eftir að ljóstrað var upp um að hann hefði átt eignir í skattaskjólum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óstöðugleiki og tíðar kosningar mun verða það fyrsta sem kemur í huga fólks þegar íslensk stjórnmál áratugarins verða rifjuð upp. Frá 2007 og fram til ársins 2017 hefur fimm sinnum verið kosið til Alþingis með tilheyrandi breytingum á mannavali og stjórnmálaöflum á þingi. Í kosningunum 2013 gátu kjósendur valið á milli 15 framboða, 11 á landsvísu, sem er sögulegt hámark. Vinstri-stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar náði að halda út heilt kjörtímabil á árunum 2009-2013 sem hlýtur að teljast nokkuð afrek þegar litið verður tilbaka því næstu tvær stjórnir sem tóku við völdum féllu, ásamt þeirri sem á undan fór. Fyrst stjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eftir að nafn hans hafði birst í Panamaskjölunum og síðar stjórn Sjálfstæðisflokks, Bjartrar Framtíðar og Viðreisnar sem liðaðist í sundur eftir að umræða um uppreista æru kynferðisglæpamanna komst í hámæli og tengdist áhrifamönnum í Sjálfstæðisflokki. 

Efnahagshamfarirnar sem skóku heiminn undir lok síðasta áratugar settu augljóslega svip á þann sem eftir fylgdi. Þegar ósköpin gengu yfir sat ég námskeið á MA-stigi í sagnfræði um fasisma hjá Val Ingimundarsyni. Þar var mikið rætt um hvernig ástandið væri sambærilegt því sem gekk yfir í kreppunni miklu í kringum 1930. Eftir á að hyggja virðist margt hafa fylgt sömu stefum og urðu ofan á þá. Leitað yrði aftur til gilda sem fólki þætti glötuð, þjóðernishyggja. Ódýrt en þaulreynt stef. Fátt sameinar betur en hugmyndin að það séum við á móti hinum. "Make America Great Again" var slagorð Trumps í sinni kosningabaráttu sem hann vann þvert á alla spádóma. Þar sem loforð hans um að byggja vegg sem myndi loka á straum innflytjenda frá Mexíkó og Suður-Ameríku höfðaði til Bandaríkjamanna eftir efnahags erfiðleikana. Bandaríkjaforsetar eru augljóslega þær persónur sem fólk tengir við tímabilið og á þessum áratugi hafa setið tveir eftirminnilegustu forsetar allra tíma þó að skilin á milli þeirra gætu líklega ekki verið skarpari.

Donald Trump er óvenjulegasti Bandaríkjaforseti allra tíma.
Donald Trump er óvenjulegasti Bandaríkjaforseti allra tíma. Ljósmynd/AFP


Barack Obama var fyrsti blökkumaðurinn til að gegna embættinu á árunum 2009-2017 og hans kosningarloforð var "Change we can belive in"
. Bandaríkjaforsetar eru alltaf umdeildir og Obama var það vissulega en hann bar þó með sér mannúð, yfirvegun og ábyrgð sem hann mælti fyrir af þekkingu og innsýn. Yfirburðaræðumaður. Kjósendur á Vesturlöndum eru þó augljóslega orðnir þreyttir á stjórnmálastéttinni og eru tilbúnir til að hlusta á lausnir sem hefðbundnir stjórnmálamenn myndu aldrei boða. Trump er slétt sama um álit annarra og valdatíð hans hefur verið með ólíkindum sveiflukennd þar sem mannabreytingar í hæstu embættum þjóðarinnar hafa verið tíðar. Tungumálið sem hann notar er óheflað og leiðirnar sem hann velur til að hrista upp í andstæðingum sínum minna á aðferðir sem verstu hrekkjusvínin í grunnskólanum notuðu. Í heimsókn bandaríska varaforsetans Mike Pence til landsins fyrr á árinu varaði hann Íslendinga við kínverskum áhrifum og þá sérstaklega tæknirisanum Huawei. Kuldinn í samskiptum Kínverja og Bandaríkjamanna verður eflaust eitt helsta stefið í alþjóðastjórnmálum næstu árin.

Donald Trump og Barack Obama saman á tröppum þinghússins eftir …
Donald Trump og Barack Obama saman á tröppum þinghússins eftir að sá fyrrnefndi tók við embætti forseta Bandaríkjanna í janúar 2017. Obama boðaði breytingar í sinni kosningabaráttu á meðan Trump vildi endurvekja eldri gildi. Ljósmynd/AFP

Hér á Íslandi var þreytan á stjórnmálamenningu landsins hvergi sýnilegri en þegar grínistinn Jón Gnarr leiddi Besta flokkinn til sigurs í borgarstjórnarkosningum í byrjun áratugarins. Stefnumálin skiptu litlu máli. Fólk vildi bara eitthvað annað en hefðbundna stjórnmálamenn. Hans verður mögulega helst minnst fyrir að hafa náð að gera stjórnmálin mannleg á furðulegum tímum þar sem mikil reiði og gremja bjó í fólki eftir bankahrunið.

Jón Gnarr var einn mest áberandi stjórnmálamaður áratugarins. Með honum …
Jón Gnarr var einn mest áberandi stjórnmálamaður áratugarins. Með honum breyttist tungutakið í stjórnmálunum með aukinni áherslu á persónuleika og mennsku. mbl.is/Kristinn Ingvarsson


Nýr forseti sem kjörinn var á tímabilinu hefur líka verið ferskur andvari í stjórnmálin sem skipta okkur þegar öllu er á botninn hvolft svo miklu. Guðni Th. Jóhannesson hefur flesta þá kosti sem fólki þykir gott að sjá hjá fólki sem gegnir mikilvægum lýðræðislegum hlutverkum í þjóðfélaginu. Sameinar frekar en að sundra. Samkennd og velferð fólksins sem kaus virðist skipta hann meira máli en eigið skinn og sinn sess í sögubókunum.         

Setning Alþingis september 2019. Guðni Th. Jóhannesson gefur tóninn á …
Setning Alþingis september 2019. Guðni Th. Jóhannesson gefur tóninn á Alþingi. Vinsældir forsetans eru miklar. mbl.is/​Hari

Pólitískar skotgrafir hafa nefninlega víðast hvar dýpkað. Í Bretlandi kaus fólk að ganga út úr Evrópusambandinu og nú fjórum árum síðar hefur lítið gerst í málinu annað en að klofningurinn í bresku samfélagi virðist áþreifanlegri. Þar hefur verið kosið fjórum sinnum á áratugnum sem er ævintýralega mikið hjá þessari íhaldssömu þjóð. 

Í Evrópu hefur mikið gengið á. Gríðarlegt átak þurfti til að bjarga Grikklandi frá gjaldþroti og miklir efnahagslegir erfiðleikar hafa verið víðar t.a.m. á Ítalíu, Írlandi og Portúgal. Í kjölfar efnahagsþrenginganna byrjaði svo flóttamannastraumurinn frá stríðshrjáðum svæðum í Mið-Austurlöndum og fátækum ríkjum í Afríku. Þetta hefur valdið miklu álagi á þau lönd sem eru á jaðrinum. Ein átakanlegasta fréttamynd áratugarins birtist árið 2015 og er táknræn fyrir ástandið. Alan Kurdi var þriggja ára gamall sýrlenskur drengur á flótta frá stríðinu í heimalandinu og drukknaði þegar fjölskylda hans var að reyna að komast frá Tyrklandi til grísku eyjarinnar Kos. Myndin af líflausum líkama drengsins hreyfði við fólki um allan heim. Samfélagsmiðlar loguðu, hér á Íslandi bauðst fólk til að hýsa fólk á flótta sjálft.

Myndin af líflausum líkama hins þriggja ára gamla Alan Kurdi …
Myndin af líflausum líkama hins þriggja ára gamla Alan Kurdi vakti gríðarlega sterk viðbrögð. En eitt af einkennum á áratugi samfélagsmiðlana eru sterk viðbrögð til skamms tíma þar til að næsta mál nær athygli fólks. Tveir menn fengu dóma fyrir aðild sína að bátsferðinni sem endaði með því að 14 manns létust þegar gúmmíbát sem þeir höfðu sett allt of marga farþega í hvolfdi. Ljósmynd/AFP

Annað myndskeið sem var tekið upp nokkrum dögum síðar er einnig táknrænt fyrir ástandið. Ungverska kvikmyndatökukonan Petra Lazlo var að mynda fólk á flótta yfir landamærin frá Serbíu til Ungverjalands fyrir N1TV sjónvarpsstöðina. Þar sést hún fella mann þar sem hann hleypur með unga dóttur sína í fanginu í leit að betra lífi og síðar sést hún sparka í aðra stúlku á hlaupum. Atvikið var að sjálfsögðu fordæmt en það var auðvitað bara því að það náðist á mynd. Staðreyndin er sú róttæk þjóðernisöfl hafa verið í mikilli sókn í evrópskum stjórnmálum á undanförnum misserum. Hið jákvæða er að hér á landi hefur tekist að halda ljótustu hliðunum á þjóðerniskennd í skefjum. 

Uppljóstrunarvefurinn Wikileaks hefur hrist verulega upp í heimsmálunum með uppljóstrunum um fangabúðirnar í Guantanamo og aðferðir hersins í Sýrlandi, Afganistan og Írak. Vefurinn hefur ávallt haft sterka tenginu við Ísland og blaðamaðurinn Kristinn Hrafnsson er einn af helstu stjórnendum. Nú síðast átti vefurinn stóran þátt í að ljóstra upp um mútugreiðslur Samherja í Namibíu. Öllu stærra mál var þó birting á tölvupóstgögnum bandarískra demókrata sem hafði skaðleg áhrif á kosningabaráttu Hillary Clinton. Hvernig sem á það er litið hefur þessi leið til að fletta ofan af óheiðarleika í spilltum heimi haft afgerandi áhrif á áratuginn og verður eitt helsta stefið þegar hann verður rifjaður upp síðar meir.    

Fáar stjörnur hafa skinið jafn skært á áratugnum og Beyoncé …
Fáar stjörnur hafa skinið jafn skært á áratugnum og Beyoncé Knowles. Platan hennar Lemonade frá árinu 2016 naut bæði mikilla vinsælda en var einnig vel tekið af gagnrýnendum. Þótti djörf og hreinskilin þar sem stór þjóðfélagsleg mál voru skoðuð en einnig hjónaband hennar og rapparans Jay-Z. Ljósmynd/AFP Gabriel Bouys

Tónlist setur sterkan svip á stemningu hvers áratugar. Bowie átti sjöuna og Michael Jackson áttuna, nokkurn veginn. Samkvæmt Spotify var það Kanadamaðurinn Drake sem fékk flest streymi áratugarins þar á meðan rauðbirkni ljúflingurinn Ed Sheeran kom næstur. Á Youtube var það Despasito sem fékk langsamlega flest streymin eða sex og hálfan milljarð. Já kæri lesandi, þú last þetta rétt. Sexþúsundogfimmhundruðmilljón sinnum hefur fólk hlustað á Despasito með Luis Fonsi og Daddy Yankee af fúsum og frjálsum vilja! Vonum samt að fólk muni frekar eftir Arcade Fire, Kanye eða Beyoncé.

Hér heima hefur íslenska rappið verið fyrirferðamikið hjá ungu fólki sem er auðvitað mikilvægasti hlustendahópurinn. Áratugurinn er þó ekki síst merkilegur fyrir þær sakir að íslenskt tónlistarfólk stimplaði sig rækilega inn í meginstrauminn á alþjóðavísu. Íslensk tónlist hefur frekar verið á jaðrinum þó Björk og Sigur Rós hafi vissulega verið áberandi. Hver hefur ekki lent í því að heyra tónlist Of Monsters And Men eða Kaleo í H&M eða á sportbar erlendis. Mjög merkilegt.   

Sjónvarpsseríur nutu mikilla vinsælda á áratugnum. Fáar voru þó jafn …
Sjónvarpsseríur nutu mikilla vinsælda á áratugnum. Fáar voru þó jafn vinsælar og Game of Thrones. Íslandstengingin við þættina er náttúrulega sterk og hér sést Fjallið, Hafþór Júlíus Björnsson, gera sig líklegan til blóðsúthellinga í þáttunum. Ljósmynd/Skjáskot

Streymisbyltingin hafði mikil áhrif á sjónvarps- og kvikmyndabransann. Hollywood-bíómyndir fóru í sífellt meira mæli að snúast um ofurhetjur í myndum sem njóta sín best í tæknilega fullkomnum kvikmyndahúsum. Sjónvarpsseríur gengu í endurnýjun lífdaga og urðu að miklum sagnabálkum. Mad Men, Game of Thrones, Stranger Things og Breaking Bad slógu öll met í vinsældum.

Samkeppnin á milli Cristiano Ronaldo og Lionel Messi sem hefur …
Samkeppnin á milli Cristiano Ronaldo og Lionel Messi sem hefur að miklu leyti farið fram á liðnum áratug á eftir að lifa í minningu fólks í langan tíma. Báðir léku með landsliðum sínum gegn Íslandi í úrslitakeppni stórmóta. AFP

Erfitt er að ímynda sér að íslenskt íþróttalíf eigi eftir að upplifa aðra eins gullöld og við höfum upplifað á síðustu árum. Hæst bar framgöngu íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á EM í Frakklandi árið 2016, fyrsta stórmótinu sem liðinu tókst að tryggja sig inn á. Sigur liðsins á því enska í 16 liða úrslitum í Nice er afrek sem verður rifjað reglulega upp næstu áratugina. Líklega eru einhverjir enn að greiða yfirdráttinn sem borgaði mun lengra uppihald og ferðalög í Frakklandi en gert hafði verið ráð fyrir. Í kjölfarið fylgdi svo ferð austur til Rússlands á HM sem var eftirminnileg þó árangurinn væri ekki jafn góður og geðshræring þjóðarinnar ekki jafn mikil. Á mótunum var spilað við tvær skærustu íþróttastjörnur áratugarins Messi með Argentínu og Ronaldo í Portúgal og í bæði skiptin var niðurstaðan 1-1 jafntefli.

Það var ekki bara karlalandsliðið sem hreif þjóðina með sér því kvennalandsliðið í knattspyrnu lék á EM 2013 og körfuknattleikslandslið karla tók í fyrsta skipti þátt í lokakeppni Evrópumóts árið 2015 og endurtók leikinn árið 2017. Karlalandsliðið í handknattleik hefur einnig náð inn á flest þau stórmót sem í boði hefur verið á tímabilinu og frábær árangur hefur náðst í hópfimleikum kvenna. Það er því ekki að ósekju að talað hefur verið um íslenska íþróttaundrið á tímabilinu.

Batnandi heimur þrátt fyrir allt?

Það sem helst ratar í fréttir og telst til stórviðburða er gjarnan á neikvæðum nótum. Flestir geta kallað fram minningar um voðaverkin í Útey, jarðskjálfta og flóð í Japan eða jarðskjálfta á Haítí. Fæstir muna þó eftir jákvæðu fréttunum sem felast gjarnan í hægfara þróun og litlum skrefum sem erfitt er að slá upp í grípandi fyrirsagnir. Staðreyndin er hins vegar sú að þrátt fyrir alla gallana og misréttið sem svo auðvelt er að reiðast yfir er margt í stóru myndinni sem gefur tilefni til bjartsýni. Aðgengi fólks að tækni, menntun og upplýsingum fer sífellt batnandi í fátækari löndum heimsins og heilbrigðisvísindum fleygir fram. Í upphafi áratugarins lifðu um 16% jarðarbúa í sárri fátækt en nú þegar honum er að ljúka er sú tala komin niður í 8,6% samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna. Vitneskjan um það hlýtur að vekja vonir fólks um að mannkyn sé að einhverju leyti á réttri leið.   



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér léttir þegar búið verður að hreinsa andrúmsloftið á heimilinu. Reyndu ekki að eyðileggja málið með því að þykjast geta sóst eftir meiru.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér léttir þegar búið verður að hreinsa andrúmsloftið á heimilinu. Reyndu ekki að eyðileggja málið með því að þykjast geta sóst eftir meiru.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
3
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir