Daði Freyr og Gagnamagnið með lagið Think about things verða framlag Íslands í Eurovision-keppninni í ár sem fram fer í Rotterdam í Hollandi. Þetta varð ljóst nú rétt í þessu á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar.
Fimm lög kepptu til úrslita, en það voru Ísold & Helga – Meet me halfway, Daði Freyr og Gagnamagnið – Think about things, Nína – Echo, Ída – Oculis videre og Dimma - Almyrkvi.
Dimma og Daði Freyr og Gagnamagnið komust í úrslitaeinvígið og eftir endurflutning þeirra á lögum sínum var aftur símakosning. Fór svo að lokum að Daði Freyr og Gagnamagnið stóðu uppi sem sigurvegarar og fara því fyrir Íslands hönd í aðalkeppnina sem fram fer í maí.
Þetta er annað árið sem Daði Freyr og Gagnamagnið taka þátt í Söngvakeppninni, en fyrir tveimur árum enduðu þau í öðru sæti. Nú eru þau hins vegar á leiðinni út í aðalkeppnina.