Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra eru hætt við að afhenda verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum í kvöld vegna kórónuveirunnar.
Þetta staðfestir Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEFs.
„Síðustu daga hefur fjölmörgum viðburðum, sem mér hefir verið boðið á og ég hugðist sækja, verið frestað eða aflýst,“ segir forseti Íslands í svari við fyrirspurn mbl.is.
„Skipuleggjendur þeirra sýndu þannig í verki samfélagslega ábyrgð. Af virðingu við þá erfiðu en lofsverðu afstöðu ákvað ég að þiggja ekki boð um að vera við afhendingu Íslensku tónlistarverðlaunanna í kvöld. Þeir, sem að þeim standa, vita að sú ákvörðun hefur engin áhrif á viðburðinn sjálfan og óska ég þeim, gestum og verðlaunahöfum alls velfarnaðar.“
Guðni átti að afhenda verðlaun í tveimur flokkum sem snúa að Björtustu voninni og Lilja átti að afhenda heiðursverðlaunin. Bragi Valdimar Skúlason, formaður Samtóns, mun í staðinn afhenda síðarnefndu verðlaunin.
Guðrún Björk kveðst sýna ákvörðun Guðna og Lilju skilning. Hún segir að fundað hafi verið stíft vegna veirunnar og ákveðið hafi verið að halda Íslensku tónlistarverðlaunin vegna þess að yfirvöld hafi ekki sett á samkomubann. Jafnframt hafi landlæknir talað um að setja slíkt bann ekki á of snemma.
Allir gestir í Hörpu í kvöld hafa fengið tvo tölvupósta með nákvæmum hegðunarreglum til að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar.
„Við sjáum að okkar félagsmenn koma rosalega illa út úr þessu. Það er búið að aflýsa miklu. Ég skil það og hvert fyrirtæki tekur ákvörðun fyrir sig,“ segir Guðrún Björk um áhrif veirunnar og nefnir að tíu tónleikum hjá sama hljóðfæraleikara sem er meðlimur í STEF hafi verið aflýst í mars. Hann verði því tekjulaus allan mánuðinn.
„Ef fyrirtæki treysta sér til er hægt að koma saman og reyna að halda áfram að lifa lífinu,“ segir hún.