Aðdáendur tónlistarmannsins Helga Björnssonar þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að komast ekki á ball um páskana því Helgi heldur áfram með tónleika sína á laugardagskvöldið. Tónleikarnir verða sýndir í Sjónvarpi Símans klukkan 20:00 á laugardagskvöldið. Verður þeim einnig streymt beint hér á mbl.is og í útvarpinu á K100.
Útsendingarnar eru orðnar fastur liður á laugardagskvöldum landsmanna frá því að samkomubannið skall á. Þar syngur Helgi valdar dægurperlur við undirleik Reiðmannanna og býður til sín vinum og kunningjum ásamt eiginkonu sinnu Vilborgu Halldórsdóttur sem lesið hefur valin ljóð sem hún hefur þýtt úr ítölsku. Ljóðin hafa verið innblásin af ástandinu sem þar ríkir vegna Covid 19 en þau hjónin hafa verið með annan fótinn á Ítalíu í áratugi og eiga þar marga góða vini.
Stemningin hefur verið einlæg, heimilisleg og áreynslulaus. Sérstakir gestir þeirra hjóna hafa verið Salka Sól Eyfeld, Friðrik Dór og nú síðast KK og Ragga Gröndal en allir hafa þessir gestir farið á kostum enda aufúsugestir á öllum heimilum landsins. Einn helsti samkvæmisleikur landsmanna síðustu laugardagskvöld hefur verið að giska á hverjir verða gestir kvöldsins en Helgi gefur ekkert upp um það hverjir gestir þeirra hjóna verða á páskakvöldvökunni.
Viðbrögðin við kvölddagskránni hafa verið mikil og hafa þau ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með samfélagsmiðlum á laugardagskvöldum. „Ég hef fengið afskaplega góð viðbrögð við tónleikunum og ég er innilega þakklátur fyrir það. Maður fyllist auðmýkt og eftir að hafa fengið ítrekaðar óskir um að endurtaka leikinn gat ég ekki annað en samþykkt það,“ segir Helgi.