Gott gigg, bara í röngu brúðkaupi

„Í kvöld er gigg, inn á röngum stað.“ Hreimur Heimisson …
„Í kvöld er gigg, inn á röngum stað.“ Hreimur Heimisson söngvari spilaði í tveimur brúðkaupum á laugardaginn. Hann var samt bara bókaður í eitt. Ljósmynd/Aðsend

Þetta átti að vera eins og hvert annað laugardagskvöld.

Hreimur Heimisson söngvari mætti í brúðkaup í Samskipahöllinni til þess að taka tvö lög. Hann hafði fengið þau fyrirmæli að koma inn rétt undir lok ræðu hjá veislustjóra og koma gestum á óvart með „Lífið er yndislegt“. Síðan átti hann að fara upp á svið, þar sem statíf og hljóðnemi biðu hans tilbúin, og taka þar annað lag. Hann gerði það, brjáluð fagnaðarlæti og það var allt og sumt. 

Eða þannig. Hreimur ætlaði síðan að kveðja veislustjórann á leiðinni út, en náði ekki tali af honum. Honum fannst eitthvað aðeins undarlegt við þetta, en fór loks út í bíl og ætlaði heim. Þar sá hann að hann var með ósvarað símtal frá veislustjóranum. Hann hringir til baka: Blessaður. Hvar ert þú? 

Hreimur: Hvar er ég? Ég er hérna í Samskipahöllinni. Hvar ert þú?

Veislustjóri: Í Haukahöllinni, í veislunni.

Undir eins runnu á Hreim tvær grímur, jafnmargar og veislurnar. „Ég áttaði mig strax á þessu og fer bara í hláturskast þarna í bílnum. Ég stormaði semsagt inn í vitlaust brúðkaup, tók tvö lög og fór,“ segir Hreimur í samtali við mbl.is. 

Hann hafði aldrei verið bókaður í neitt brúðkaup í Samskipahöllinni. Það þýddi þó ekki að gestirnir tækju honum ekki fagnandi. 

Þetta er ekki búið

Að spila í röngu brúðkaupi veitir manni ekki undanþágu frá því að spila í því rétta. Hreimur brunaði sem leið lá á Haukaheimilið. Þar byrjaði hann á að gera hreint fyrir sínum dyrum og útskýra seinkunina, tók síðan settið, brjáluð fagnaðarlæti og það var allt og sumt. 

Næsta mál var að gera einnig hreint fyrir sínum dyrum þar sem hann hafði ruðst óbókaður inn í brúðkaupsveislu og stigið á svið. 

„Ég gróf upp númerið hjá veislustjóranum í Samskipahöllinni og ætlaði að hringja og útskýra mál mitt. Hann setti mig á hátalara fyrir veisluna, þar sem ég sagði bara afsakið inngripið, ég átti ekki að vera hjá ykkur heldur var ég á vitlausum stað. En verði ykkur bara engu síður að góðu og vonandi nutuð þið laganna og skemmtuð ykkur vel,“ segir Hreimur. 

Veislugestir í ranga brúðkaupinu fyrirgáfu honum og gott betur. Sem hann ræddi við þá á hátalaranum kom allt í einu upp sú krafa að hann yrði fenginn aftur, nema nú undir öðrum formerkjum: Sem bókaður listamaður. „Þau spurðu mig bara hvort ég vildi ekki koma aftur til þeirra og enda kvöldið hjá þeim. Og ég geri það, fer aftur til þeirra, tek nokkur partílög eftir mig og fleiri, og hélt uppi smá stuði áður en ég fór heim.“

Í kvöld er gigg, inni á röngum stað

Brjáluð fagnaðarlæti og þar með raunverulega allt og sumt, nema ef vera skyldi að eftir stæði að útskýra hvernig það megi vera að það passi inn í dagskrá brúðkaups að óbókaður maður komi þar fram eins og þruma úr heiðskíru lofti og sé jafnskjótt farinn, athugasemdalaust.

„Það er algerlega lygilegt að þetta hafi gengið upp. Ég hef bara labbað þarna inn á fullkomnum tímapunkti,“ útskýrir Hreimur.

„Ég er í sambandi við veislustjórann í brúðkaupinu á ranga staðnum þegar ég mæti og hann segir: komdu bara inn núna. Ég fer inn, og það passar allt eins og hann sagði að það yrði þegar ég kæmi inn; það er einhver að klára ræðu, míkrófónninn er klár, sviðið og statífið, ég átti bara að koma inn og syngja lögin og fara svo út. Ég gerði það og fatta síðan ekkert fyrr en úti í bíl þegar ég sé ósvarað símtal að ég hafi verið á röngum stað. Þannig að ég syng bara núna næstum því eins og Ingó: Í kvöld er gigg, inni á nýjum stað. Nema hjá mér er þetta: Í kvöld er gigg, inni á röngum stað.“




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn fyrir skipulagningu heimilisins sem setið hefur á hakanum undanfarna mánuði. Forðastu að gera of mikið, þú átt það til að fara yfir strikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Torill Thorup
5
Sarah Morgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Dagurinn í dag er kjörinn fyrir skipulagningu heimilisins sem setið hefur á hakanum undanfarna mánuði. Forðastu að gera of mikið, þú átt það til að fara yfir strikið.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Solja Krapu-Kallio
4
Torill Thorup
5
Sarah Morgan