Þessu smyglaði Gerður Kristný inn á Litla Hraun

Gerður Kristný tók viðtal við fanga á Litla Hrauni sem …
Gerður Kristný tók viðtal við fanga á Litla Hrauni sem játaði á sig morð. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Rithöfundurinn Gerður Kristný Guðjónsdóttir segir að eitt sinn hafi hún tekið viðtal við fanga á Litla Hrauni sem hafi játað á sig morð í viðtali. Gerður starfaði um tíma sem ritstjóri Mannlífs og birtist viðtalið í tímaritinu. Hún segist ekki hafa tilkynnt lögreglunni um játningu fangans áður en viðtalið birtist. Gerður var gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþáttunum Snæbjörn talar við fólk

„Einu sinni tók ég viðtal við mann sem játaði á sig morð og svo leyfðum við bara löggunni að lesa það í blaðinu,“ sagði Gerður.

„Já. Hann hringdi í mig hann Þórhallur Ölver Gunnlaugsson hét hann og sagði: „Ég er ný kominn úr einangrun. Ég er grunaður um að hafa myrt Agnar Agnarsson og ég ætla að segja þér frá því.“,“ segir Gerður í viðtalinu. 

Þórhallur Ölver, sem síðar breytti nafni sínu í Þór Ölver, var dæmdur í 16 ára fangelsi árið 2000 fyrir morðið á Agnari. Hann strauk af fangelsinu Litla Hrauni árið 2011 var veitt reynslulausn ári síðar. Árið 2004 fékk hann tveggja og hálfs árs fangelsisdóm fyrir skjalafals og að reyna að svíkja fé út úr dánarbúi Agnars. Árið 1995 hafði Þórhallur fengið einn þyngsta dóm Íslandssögunnar fyrir fjársvik, þrjú ár í máli sem kennt var við fyrirtækið Vatnsberann.

„Svo skrifaði hann mig á gestalistann. Ég fór inn á Litla Hraun, þetta var að sumri til árið 1999, ef ég man rétt. Og ég hitti hann bara sem venjulegan viðmælanda. Smyglaði inn diktafóninum og tók við hann viðtal. Hann sagði mér hvernig þetta hefði borið við. Hann myrti vin sinn eftir ansi mikið fyllerí og dópneyslu. Síðan kom viðtalið út um það bil tveimur vikum síðar og lögreglan fékk að lesa játninguna í blaðinu,“ segir Gerður. 

„Þetta var í fréttatímanum tvö kvöld. Fyrst fjallaði Logi Bergmann á Ríkissjónvarpinu um að játningin lægi fyrir í Mannlífi nýútkomnu og svo næsta kvöld var hvernig í ósköpunum þessum blaðamanni hefði tekist að smygla diktafóninum. Þannig að þetta var nú ekkert mjög flókið, maður setti þetta bara í vasann og labbaði inn,“ segir Gerður. 

„Svo bara sagði hann þeim frá því. Hann var eitthvað að hrekkja þá. Svo fór hann bara fyrir dóm og var dæmdur fyrir þetta. Hann vildi bara ekki segja þeim það fyrst, hann vildi bara segja mér það fyrst,“ segir Gerður. 

Hún segir að í heimsóknum sínum á Litla Hraun eftir þetta atvik hafi hún alltaf verið í fylgd með fangaverði.

„Svo að ekkert myndi koma fyrir mig var það sem Litla Hrauni datt í hug að segja en þetta var náttúrulega bara fyrirsláttur. Það hafði ekkert komið fyrir mig þegar ég sat þarna með Þórhalli en allt í einu var líf mitt í mikilli hættu að sitja þarna með einhverjum föngum. Þeir voru bara að fylgjast með. Þeir sátu þarna voða kurteisir og ósköp indælir menn,“ segir Gerður. 

Viðtalið má hlusta á í heild sinni hér fyrir neðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar