Miðstjórnarfundur Framsóknar var haldinn með rafrænum hætti í dag. Hátt á annað hundrað manns tóku þátt í fundinum. Tekin var ákvörðun um að halda flokksþing dagana 23.-25. apríl á næsta ári að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Framsóknarflokknum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, fór yfir sviðið í ræðu sinni en lagði sérstaka áherslu á atvinnumál og þá sérstaklega um þau tækifæri sem liggja í skapandi greinum eins og kvikmyndagerð og tölvuleikjagerð.
„Ég sé stórt tækifæri í því að styðja enn frekar við kvikmyndagerðina með því að hækka endurgreiðslur í 35% líkt og gert er í þeim löndum sem keppa við okkur um verkefni. Það skref, í viðbót við metnaðarfulla kvikmyndastefnu sem Lilja Dögg hefur lagt fram, myndi gera kvikmyndagerðina enn öflugri atvinnuveg fyrir Ísland. Þar með yrði lagður hornsteinn að fjórðu stoð efnahagslífsins, stoð skapandi greina. Árið 2019 störfuðu um 26 þúsund manns við ferðaþjónustu á Íslandi. Getum við sett okkur markmið um það að 10-15 þúsund muni starfa í kvikmyndum og tölvuleikjum innan fárra ára og veltan fari úr tæpum 30 milljörðum króna í 300 milljarða? Það er hægt með markvissri stefnu.“
Sigurður Ingi beindi einnig sjónum að hlutverki bankanna í kórónuveirukreppunni. „Seðlabankinn sendi bönkunum skýr skilaboð í vikunni og lækkaði stýrivexti en fram að því höfðu bankarnir hækkað vextina. Vaxtahækkun bankana er ekki til þess fallin að hvetja til fjárfestinga – fjárfestinga sem þarf til að komast út úr krísunni. Hvar liggur þá ábyrgð bankana? Bankarnir segja aukinn fjármagnskostnað vera að sliga þá, – gott og vel. Við lækkuðum reyndar bankaskattinn hraðar til að lækka kostnað bankanna – En ég spyr á móti: Ætlar einhver að græða og hámarka hagnað sinn í krísu sem þessari? Hér verða allir að koma að borðinu sem eru aflögufærir. Bankarnir líka. Það er grundvöllur þess að snúa hagvexti úr mínus í plús og fá hjólin aftur til að snúast. Seðlabankinn hefur staðið við sitt, ríkissjóður hefur sett fram aðgerðir og stuðningslán verða framlengd. Nú er komið að bönkunum að sýna á spilin.“
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, sagði í ræðu sinni að Framsókn væri flokkur sem stæði við sín fyrirheit og benti því til staðfestingar að flokkurinn hefði nánast stýrt öllum sínum áherslumálum í höfn. „Við höfum gjörbylt námslánakerfinu, til hagsbóta fyrir nemendur með nýjum Menntasjóði. Við höfum hafið kennara til vegs og virðingar og veitt auknu fé til framhalds- og háskóla. Við höfum mótað og fjármagnað kvikmyndastefnu, sem er nauðsynlegur áburður fyrir ört vaxandi list- og atvinnugrein. Og nú hyllir undir byggingu nýrra þjóðarleikvanga, sem aðrir hafa talað um í áratugi.“
Hún lagði einnig mikla áherslu á breytingar í sambandi við starfsmenntanám. „Við erum að ryðja úr vegi kerfislægum hindrunum í starfsmenntakerfinu og viðbrögðin birtast í ótrúlegum áhuga á starfsmenntun sem kallast á við áhugasvið nemenda og þarfir samfélagsins. Iðnmenntaðir munu fá aðgang að háskólum frá og með næsta skólaári, rétt eins og bókmenntaðir framhaldsskólanemar. Tillaga um lagabreytingu í þessa veru er í samráðsgátt stjórnvalda. Aðferðafræði við vinnustaðanám iðn- og starfsnema hefur verið endurskoðuð og námið endurskipulagt, svo skólakerfið tryggi námslok en þau ráðist ekki af aðstæðum nemenda til að komast á starfssamning. Reglugerð í þessa veru verður gefin út á næstunni, en þetta er líklega stærsta breytingin sem orðið hefur á starfsmenntakerfinu í áratugi.“
Í lok ræðu sinnar fjallaði Sigurður Ingi um framtíðina. „Framtíðin ræðst á miðjunni. Það vitum við og það held ég að flestir Íslendingar viti innst inni. Öfgar til hægri og vinstri eru eins og hver önnur tískusveifla. Öfgar til hægri nærast á öfgum til vinstri, þær ýkja ástand og sundra samfélögum. Okkar flokkur, okkar Framsókn, og stefna okkar boða umbætur en ekki byltingar. Við leiðum saman ólík öfl og ólíka hagsmuni til að samfélagið verði á morgun betra en það var í gær. Veturinn verður erfiður fyrir marga en með krafti samfélagsins, með krafti samvinnunnar þá mun hann verða auðveldari. Og eftir vetur kemur vor og þá verðum við vonandi aftur farin að faðma fólkið okkar og getum horft grímulaus fram á veginn.“