Fyrirlesarinn Bergsveinn Ólafsson, eða Beggi Ólafs eins og hann er kallaður, gaf nýlega út bókina Tíu skref í átt að innihaldsríku lífi. Það er þó ekki bara bókin sem hefur vakið athygli. Málvilla á bol sem hann notar til þess að auglýsa bókina hefur einnig vakið athygli.
„Heimsóttu einmana afa þinn áður en það verður um seinan,“ stendur á bol Begga. Við myndina á Instgram má einnig sjá setninguna og segir Beggi þessa gjörð vera skref númer fjögur.
„Sögnin er að heimsækja, boðháttur sækja er sæktu, heimsæktu einmana afa þinn er því rétt,“ segir Atli Steinn Guðmundsson, blaðamaður og prófarkalesari hjá mbl.is og Morgunblaðinu. „Villan kemur líklega til af því að fólk virðist þarna mynda boðhátt sagnarinnar af þátíðinni ég heimsótti, þú heimsóttir en ekki nafnhættinum að heimsækja sem væri eðlilegra. Nákvæmlega af sömu rótum segir fólk keyptu þegar réttur boðháttur er kauptu. Þar er jú á ferð sögnin að kaupa, ekki sögnin að keypa.“