Næsti forseti og varaforseti Bandaríkjanna, Joe Biden og Kamala Harris, eru manneskjur ársins 2020 hjá Time-tímaritinu. Tilkynnt var um valið í gær.
Biden og Harris voru valin úr hópi fjögurra einstaklinga eða hópa. Aðrir sem komu til greina voru heilbrigðisstarfsmenn í framlínunni ásamt sóttvarnalækni Bandaríkjanna, Anthony Fauci, hreyfingar sem hafa barist gegn kynþáttahyggju og Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Á forsíðu Time-tímaritsins í gær eru þau Biden og Harris undir fyrirsögninni „Breyta sögu Bandaríkjanna“.
Time hefur veitt þessi verðlaun á hverju ári frá árinu 1927. Með þeim er tímaritið að heiðra einstakling eða hópa sem hafa haft mest áhrif á fréttaflutning, hvort heldur til hins betra eða verra, á árinu sem er að líða.
Í gær útnefndi Time LeBron James íþróttamann ársins og kóreska strákabandið BTS var valið skemmtikraftur ársins. Í fyrra var það Greta Thunberg sem var valin manneskja ársins af Time en Trump var persóna ársins árið 2016.