Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, endar árið sem dáðasti maður landsins. Fer hann þar með fram úr Barack Obama, fyrrum Bandaríkjaforseta, sem undanfarin tólf ár hefur vermt toppsætið. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar Gallup, sem gerðar voru opinberar í dag.
Fram kmeur að 18% þeirra sem tóku þátt í könnuninni sögðust dást mest af Trump, en til samanburðar var sú tala um 15% fyrir Obama. Næstur á eftir þeim var verðandi forseti landsins, Joe Biden, með stuðning 6% svarenda.
Næstir á eftir þremenningunum voru sóttvarnalæknirinn Anthony Fauci og Frans páfi. Meðal efstu tíu á listanum voru körfuboltamaðurinn Lebron James, öldungardeildarþingmaðurinn Bernie Sanders og stofnandi Microsoft Bill Gates.
Þetta er í tíunda skipti sem Trump nær inn á efstu tíu sætin á listanum. Áður en hann fór að láta að sér kveða í pólitík var hann við toppinn árin 1988, 1989, 1990 og 2011. Biden hefur einu sinni áður náð inn á listann. Það var árið 2018.