Hunter Biden, sonur Joes Bidens Bandaríkjaforseta, stefnir á að gefa út ævisögu sína hinn 6. apríl næstkomandi. Í viðtali um bókina sagði faðir hans að þegar hann las bókina hefði sér fundist hann búinn að „endurheimta son sinn“.
Í bókinni, sem ber titilinn Beautiful Things, mun Hunter ræða um baráttu sína við fíkniefni og áfengi. Þar talar hann einnig um baráttuna að verða edrú en það tók hann nokkrar tilraunir að komast á beinu brautina.
„Veistu það, ég þori að veðja að það er ekki til fjölskylda sem þekkir það ekki að einhver í fjölskyldunni hafi glímt við áfengis- eða vímuefnafíkn,“ sagði Joe Biden í viðtali um bók sonar síns.
Hann sagðist vera mjög stoltur af syni sínum og að bókin hefði haft mikil áhrif á sig. „Hann stígur fram með svo miklum heiðarleika og talar um vandamálið og vonin sem það gaf mér að lesa hana; það var eins og ég hefði endurheimt strákinn minn, skilurðu hvað ég meina?“ sagði Biden á tilfinningaríkum nótum í viðtalinu og baðst svo afsökunar á að vera svona persónulegur.
Hunter vann ekki að framboði föður síns og sinnir engu opinberu starfi innan Hvíta hússins. Hann hefur áður tjáð sig um fíkn sína opinberlega, en hann féll fyrst í nóvember 2010. Þá fór hann aftur í meðferð og hefur farið í nokkrar slíkar í gegnum árin.
Áföll hafa litað ævi Hunters en hann missti móður sína og systur í bílslysi þegar hann var ungur. Þá lést bróðir hans árið 2015 úr krabbameini.
Rithöfundurinn Stephen King hefur lofað bók Hunters og segir hana átakanlega.
„Hunter Biden sýnir og sannar að hver sem er, jafnvel sonur forseta Bandaríkjanna, getur riðið á bleika hestinum niður martraðastræti. Biden man þetta allt og segir frá því með hugrekki sem er bæði átakanlegt og ansi magnað. Hann byrjar á spurningunni: Hvar er Hunter? Svarið er að í þessari bók er hann sá góði, sá vondi og sá fallegi,“ skrifaði King um bókina.