Ísland situr nú í 9. sæti í á veðmálasíðunni Oddschecker fyrir Eurovision-söngvakeppnina sem fer fram í Rotterdam í maí. Daði og Gagnamagnið frumfluttu lag sitt, 10 Years, í gær en laginu var lekið á netið í vikunni sem leið.
Íslandi var lengi vel spáð sigrinum í Eurovision en eftir að lagið var afhjúpað hefur Ísland hríðfallið í veðbönkum. Eftir lekann féll Ísland niður í 5. sæti og nú í það 9.
Á vef Eurovision World eru Daði og Gagnamagnið í 4. sæti, en eftir lekann á laginu féllu þau úr 1. sæti niður í 3. sæti. Eftir formlegan frumflutning lagsins hafa þau því fallið niður um eitt sæti.
Bæði Eurovision World og Oddschecker spá Sviss sigri í Eurovision.
Staðan í veðbönkum segir þó ekki alla söguna en laginu hefur verið vel tekið á samfélagsmiðlum og í athugasemdakerfinu við lagið á YouTube. Á rúmlega hálfum sólarhring hefur lagið verið spilað yfir 26 þúsund sinnum á YouTube.
Daði og Gagnamagnið eiga sér marga aðdáendur úti í hinum stóra heimi en lag þeirra, Think About Things, naut mikilla vinsælda á síðasta ári þótt Eurovision hafi verið aflýst.