Urður Egilsdóttir
Daði Freyr og Árný Fjóla úr Gagnamagninu losna að öllum líkindum úr einangrun á mánudaginn ef sýnataka sem Daði Freyr fer í þá reynist neikvæð.
Árný Fjóla greindist með Covid-19 í lok maí þegar íslenski hópurinn kom frá Rotterdam úr Eurovision-ferðinni. Árný var sú þriðja úr íslenska hópnum til að smitast af Covid.
„Þeim líður bara mjög vel,“ segir Rúnar Freyr Gíslason, fjölmiðlafulltrúi íslenska Eurovision-hópsins, við mbl.is og bætir við að Árný hafi verið einkennalaus og finni ekkert fyrir veikindum.
„Daði fer í sýnatöku á mánudaginn og nú bara vonum við að hann hafi ekki smitast svo þau þurfi ekki að vera aðrar tvær vikur í einangrun,“ segir Rúnar Freyr en í byrjun maí fór Eurovision-hópurinn í bólusetningu með bóluefni Janssen.
Rúnar Freyr segist ekki geta svarað til um hvort parið ætli heim til sín til Þýskalands þegar þau losna úr einangrun en Árný og Daði eiga von á barni í lok ágúst.