Leikkonan Jamie Lynn Spears, systir tónlistarkonunnar Britney Spears, hefur tjáð sig opinberlega um lögráðamál systur sinnar. Mál Britney hefur farið hátt í fjölmiðlum undanfarnar vikur og verið mikið í fjölmiðlum síðastliðin tvö ár. Spears opnaði sig í story á Instagram þar sem hún sagðist vera ofboðslega stolt af systur sinni fyrir að nota rödd sína til að koma máli sínu á framfæri.
Hún styður sjálfræðisbaráttu systur sinnar og vonast til að hún fái frelsi til að lifa lífinu sem fyrst.
„Ástæðan fyrir því að ég hafði ekki tjáð mig fyrr um meðferðina á systur minni er að ég vildi að þetta kæmi fyrst frá henni opinberlega í dómsalnum, það var ekki mitt að opna á þessa umræðu og það hefði ekki verið það rétta í stöðunni. En nú þegar systir mín hefur opnaði sig og sagt það sem þurfti að segja finnst mér rétt að ég tjái mig um málið og styðji systur mína,“ sagði Spears.
Hún bætir því við að það sé mikilvægt að fólk viti að frá því að hún fæddist hefur hún ávallt elskað og dáð eldri systur sína sama hvað hefur gengið á. „Kannski studdi ég hana nóg líkt og fólk ætlaðist til af mér en ég get fullvissað ykkur að ég hef alla tíð stutt systur mína og löngu áður en myllumerkið frelsum Britney kom til sögunnar,“ sagði Spears.