Útgefendur miðilsins Mail on Sunday hafa samþykkt að greiða Meghan Markle skaðabætur fyrir að birta bréf Markle til föður síns, en dómsmálið hefur staðið yfir í þrjú ár.
Á vef The Guardian segir að neðst á forsíðu Mail on Sunday í dag hafi verið prentað að hertogaynjan af Sussex hefði unnið málið gegn Associated Newspapers um brot á höfundarrétti þegar fimm greinar voru birtar í Mail on Sunday og Mail Online árið 2019 með tilvitnunum úr bréfinu.
Bréfið skrifaði hertogaynjan árið 2018. Lögfræðingar Markle hafa sagt að bréfin hafi verið svo persónuleg að það hafi alltaf verið ljóst að þeim var aldrei ætlað að koma fyrir augu almennings. Dómarar í málinu voru sama sinnis, bréfin ættu ekki erindi til almennings.