Gosið í Eyjafjallajökli hafði áhrif

Port Hafnarhússins er nú fullt af sandi.
Port Hafnarhússins er nú fullt af sandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Verkið Sun & Sea, sem er í senn gjörningur, innsetning og ópera, hreppti Gullna ljónið á Feneyjatvíæringnum 2019 og nú gefst íslenskum listunnendum og gestum Listahátíðar í Reykjavík tækifæri til þess að líta þetta umtalaða verk augum. Litháísku listakonurnar Rugilé Barzdziukaité, Vaiva Grainyté og Lina Lapelyté, sem standa að baki verkinu, breyta porti Hafnarhússins í sólarströnd og þar má finna hóp söngvara og sjálfboðaliða í hlutverki strandgesta.

Verkið verður sýnt laugardaginn 4. júní og sunnudaginn 5. júní. Það verður flutt í stöðugri endurtekningu, fjóra tíma hvorn sýningardag, milli kl. 12 og 16 og áhorfendur geta komið og farið að vild. Listakonurnar þrjár hafa hver sínu hlutverki að gegna innan hópsins. Lina Lapelyté samdi tónverkið, Vaiva Grainyté samdi texta óperunnar, líbrettóið, og Rugilé Barzdziukaité leikstýrir.

„En við þróuðum hugmyndina í sameiningu,“ sögðu listakonurnar þegar blaðamaður náði tali af Grainyté og Barzdziukaité símleiðis fyrr í vikunni. Þær voru þá staddar í Rotterdam, þar sem Sun & Sea var flutt sem hluti af listahátíðinni O. Festival.

Hinir viðkvæmu líkamar

Listakonurnar þrjár höfðu unnið saman að öðru verki, sem fjallaði um gjaldkera og hina óhjákvæmlegu hringrás kaupa og sölu, og höfðu ferðast um heiminn með það verk í nokkur ár.

„Svo veltum við því fyrir okkur hvert samstarf okkar þriggja gæti leitt okkur næst. Þá kom þessi mynd af strönd til okkar, þar sem við sjáum viðkvæma mannslíkamana. Við byrjuðum að þróa þetta smám saman,“ segir Barzdziukaité.

Óperan er venjulega flutt á ljósum sandi.
Óperan er venjulega flutt á ljósum sandi.

Grainyté tekur undir: „Við sáum fyrir okkur þessa mynd af fólki liggja í sandinum og syngja og að horft væri á það ofan frá. Við veltum því fyrir okkur hvert samhengið gæti verið við þessa viðkvæmu og dauðlegu líkama þeirra sem fara á ströndina. Við fórum að hugsa um líkama jarðar og hve viðkvæm hún er. Því enduðum við á að vinna verkið innan vistfræðinnar, um hugmyndir tengdar hnattrænni hlýnun.“

Barzdziukaité segir þær þannig snerta óbeint á vistfræðilegum spurningum.

„Við vildum búa til samsvörun milli mannslíkamans og þeirra efnisheilda sem finna má í geimnum. Maður byrjar að heyra, eða kannski frekar finna, með textum óperunnar að jörðin er viðkvæm, rétt eins og mannslíkaminn. Þessi hliðstæða kom til okkar nokkuð fljótt.

Ströndin er heitur staður og verður sífellt heitari vegna loftslagsbreytinganna svo okkur þótti viðeigandi að velja þann stað til þess að tala um hlýnun jarðar. Nærvera sólarinnar og hitinn af henni eru sterk þar.“

Sun & Sea var sem áður sagði framlag Litháens á Feneyjatvíæringnum árið 2019, þar sem það vakti mikla athygli og hlaut aðalverðlaunin, Gullna ljónið. Barzdziukaité segir það hafa komið þeim á óvart að hljóta verðlaunin. „Við þurftum að leggja hart að okkur til þess að koma verkinu til Feneyja. Við þurftum aukið fjármagn til þess,“ segir hún og skýrir að flest verkin sem sýnd séu á tvíæringnum geti auðveldlega staðið þar í langan tíma. Verkið þeirra krefjist hins vegar aðkomu lifandi listafólks allan tímann, sem sé dýrt og flókið í framkvæmd.

Litháen var ekki með sinn eigin sýningarskála á tvíæringnum og þess vegna fór sýningin fram langt frá eiginlegum sýningarstöðum tvíæringsins. Til að byrja með komu fáir gestir að sjá sýninguna. Þær voru farnar að biðja söngvarana í verkinu að gera hlé þegar engir gestir voru til þess að horfa á verkið. En fiskisagan flaug hratt um tvíæringinn og eftir að þeim höfðu verið veitt aðalverðlaun hátíðarinnar jókst áhuginn gríðarlega. Fólk kom og stóð í röð tímunum saman til þess að sjá verkið.

Strandlífið rammað inn

Síðan 2019 hafa þær ferðast með verkið um heiminn og nú liggur leiðin á Listahátíð í Reykjavík.

Alþjóðlegur hópur listamanna ferðast með litháísku listakonunum þremur og flytur alla burðarhluta óperunnar. Auk þeirra taka um hundrað íslenskir sjálfboðaliðar þátt, bæði kórsöngvarar og almennir borgarar, sem munu bregða sér í hlutverk strandgesta.

Verkið verður flutt í porti Hafnarhúss Listasafns Reykjavíkur. Sú staðsetning er kjörin fyrir verkið þar sem svalir eins og finna má þar eru nauðsynlegur hluti af verkinu. „Þegar við semjum við listastofnanir um að koma með verkið, er algjört lykilatriði að það sé hægt að setja það upp þannig að áhorfendur geti horft á það ofan frá.“

Þær segja ýmsar ástæður fyrir því að þetta sjónarhorn ofan frá er mikilvægt. Í fyrsta lagi rammi þessi sýn á ströndina hana inn. Engin þörf sé fyrir gervisjó eða gervisól til þess að fullkomna verkið. Ströndin ein og sér sé römmuð inn, eins og að um málverk væri að ræða.

Þá bæta þær við að þetta sjónarhorn á mannfólkið á ströndinni geri það að verkum að það fari að minna á aðrar lífverur sem við mennirnir erum vanir að sjá ofan frá, svo sem maura eða þess háttar. Þannig séum við minnt á stöðu mannsins, sem einnar af þeim dýrategundum sem byggja jörðina.

Söngvarar og sjálfboðaliðar munu sóla sig í safninu um helgina.
Söngvarar og sjálfboðaliðar munu sóla sig í safninu um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjötíu tonn af sandi hafa verið flutt inn í portið. Barzdziukaité segir þær ofboðslega spenntar að vinna verkið með hinum svarta íslenska sandi. Blaðamaður bendir á að fáir líti á svartar fjörur Íslands sem sólarstrendur og svarti sandurinn veki því kannski ekki sömu hughrif og ljósi sandurinn sem við Íslendingar tengjum við erlendar sólarstrendur og jafnvel okkar eigin Nauthólsvík. „Við höfum samt rannsakað það. Það eru til svartar sólarstrendur annars staðar í heiminum svo þetta er ekki alveg fjarstæðukennt.“

Grainyté bætir við: „Við erum ótrúlega spenntar að sjá hvaða áhrif þetta hefur. Þetta er öðruvísi en það sem við höfum upplifað áður. Í texta óperunnar syngur kórinn um gullinn sand, svo kannski þurfum við að breyta því og láta hann syngja um svartan sand.“

Innblástur frá Eyjafjallajökli

Þær segjast leggja áherslu á að Sun & Sea sé ekki hefðbundið leikverk eða ópera. „Þar sem verkið er staðsett á listasafni, þá verkar það öðruvísi á áhorfendur. Við hvetjum þá til dæmis til þess að ganga um og fá þannig nýja sýn á verkið, sérstaklega af því þetta verður svo stórt í sniðum í Hafnarhúsi. Það verða svo margir sjálfboðaliðar í hlutverki strandgesta. Ef fólk er feimið við að hreyfa sig um svalirnar þá missir það af hluta af skemmtuninni,“ segir Barzdziukaité.

Listakonurnar þrjár koma allar til landsins til þess að sinna uppsetningu verksins. Þær hafa allar komið hingað til lands áður í tengslum við ýmis verkefni, Rugilé Barzdziukaité sýndi til dæmis stuttmynd á RIFF árið 2018. Þær hlakka mikið til að koma með verkið Sun & Sea til landsins.

Textahöfundurinn Grainyté segir að í líbrettóinu sé að finna skemmtileg Íslandstengsl. Þar sé sungið um fólk sem er fast á flugvelli. Eftir heimsfaraldurinn hafi fólkt tengt þetta við ferðatakmarkanirnar vegna Covid en verkið er eldra en svo.

„Þessi textabrot voru nefnilega innblásin af áhrifum eldgossins í Eyjafjallajökli 2010, sem varð til þess að flugumferð stöðvaðist víðs vegar um Evrópu. Í verkinu segir af fólki sem hittist fyrir tilviljun í London, vegna þess að flugstjórinn verður að lenda flugvélinni, og verður ástfangið. Það er mjög áhugavert að koma með þetta verk til landsins sem veitti innblástur að þessari sögu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér léttir þegar búið verður að hreinsa andrúmsloftið á heimilinu. Reyndu ekki að eyðileggja málið með því að þykjast geta sóst eftir meiru.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þér léttir þegar búið verður að hreinsa andrúmsloftið á heimilinu. Reyndu ekki að eyðileggja málið með því að þykjast geta sóst eftir meiru.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Unnur Lilja Aradóttir