Fjöldi finnskra kvenna hefur á undanförnum dögum birt myndbönd af sér að dansa á djamminu. Birta þær myndböndin til að sýna samstöðu með Sönnu Marin, forsætisráðherra Finnlands, sem gagnrýnd hefur verið harðlega eftir að tvö myndbönd af henni að dansa í einkasamkvæmi voru birt í fjölmiðlum.
Með myndböndunum skrifa konur: „Samstaða með Sönnu“.
Myndböndin af Marin birtust í fjölmiðlum í síðustu viku og tók hún í kjölfarið fíkniefnapróf, eftir að andstæðingur hennar í pólitíkinni fór fram á það. Hefur hún neitað því staðfastlega að hafa neytt nokkurra fíkniefna þegar myndböndin voru tekin. Myndböndin séu frá kvöldi sem hafi einkennst af dansi, gleði, faðmlögum og áfengisdrykkju.
“Solidarity with Sanna”
— Megha Mohan (@meghamohan) August 20, 2022
Women in Finland are posting videos of themselves partying while tagging Prime Minister Sanna Marin. pic.twitter.com/Bl1M4r0bky