Margir ráku upp stór augu í dag þegar þeir urðu varir við súludansmær á þaki Norræna hússins í Vatnsmýrinni í Reykjavík.
Var þar um að ræða gjörning sem ber heitið „Spinning Rooftops.“ Höfundur verksins er FRNZTE, en það er hluti af sýningu sem er samstarfsverkefni Goethe Institute og Norræna hússins.
Sýningarstjórar eru þau Arnbjörg María Daníelsen og Thomas Schaupp. Súludansinn verður endurtekinn á morgun klukkan tvö eftir hádegi.
Á vefsíðu viðburðarins er atriðinu lýst á þann veg að með súludansinum sameini listamaðurinn kóreógrafíska og skúlptúríska þætti. Þannig hafi dansinn byggingarfræðilega skírskorun.