Urður Egilsdóttir
Grétar Þór Sigurðsson hefur komist að því hvaða dagblað kötturinn í vinsælu jarmi (e. meme) er að lesa, sem án efa margir hafa velt vöngum yfir lengi.
Kötturinn birtist í myndbandi við lag listakonunnar Bjarkar, Triumph of a Heart, og hefur Grétar nú komist að því að kötturinn var að lesa Fréttablaðið frá 23. ágúst árið 2004.
Grétar segir í samtali við mbl.is að hann hafi rekist á jarmið á Twitter og velt því fyrir sér hvaða blað kötturinn hafi verið að lesa.
„Þessi köttur hefur verið stór í net-kúltúrnum í mörg ár og ég hafði þekkt I should buy a boat meme-ið í mörg ár áður en ég komst að því að þetta væri stilla úr myndbandi eftir Björk,“ segir hann.
Grétar segist hafa komist að því á Wikipediu að myndband Bjarkar var tekið upp í ágúst árið 2004 og fór svo að hann renndi yfir forsíður Morgunblaðsins og Fréttablaðsins frá þeim mánuði á tímarit.is.
Einn Twitter-notandi bendir á í sambandi við tíst Grétars að tilnefningarfrestur blaðamannaverðlaunanna rennur út 3. febrúar.
Hafið þið einhvern tímann velt því fyrir ykkur hvaða blað kötturinn í Triumph of a Heart er að lesa? ('I should buy a boat' kötturinn)
— Grétar Þór (@gretarsigurds) January 24, 2023
Kisi hefur verið að glugga í Fréttablaðið frá 23. ágúst 2004 með morgunbollanum. pic.twitter.com/dXAHEbn5XO