Lífið virðist ekki leika við bandaríska spjallþáttastjórnandann Jay Leno þessa dagana, en hann slasaðist illa í mótorhjólaslysi í síðustu viku og hlaut mörg beinbrot. Aðeins tveir mánuðir eru liðnir frá því Leno var síðast lagður inn á spítala með alvarleg brunasár eftir að það kviknaði í honum.
Leno greindi frá þessu í viðtali við Las Vegas Review, en þar var hann spurður hvernig bataferlið gengi eftir brunann.
„Það er svo fyndið að þú skulir spyrja að þessu. Það var fyrsta slysið. Allt í lagi? Svo bara í síðustu viku datt ég af mótorhjólinu mínu. Ég er með brotið viðbein, tvö rifbeinsbrot og tvær sprungnar hnéskeljar,“ sagði Leno.
Í kjölfarið fullvissaði Leno spyrilinn um að það væri „allt í lagi“ með hann eftir slysið sem átti sér stað 17. janúar síðastliðinn, og að hann væri jafnvel að fara að vinna um helgina.
Leno útskýrði að hann hefði verið að prufukeyra mótorhjól af árgerðinni 1940 og tekið eftir bensínlykt. Hann hafi í kjölfarið ákveðið að stoppa mótorhjólið. „Þannig að ég beygði niður hliðargötu og fór yfir bílastæði,“ sagði Leno og útskýrði að hann hefði ekki tekið eftir vír sem hefði verið strengdur yfir bílastæðið.
„Ég sá það ekki fyrr en það var of seint,“ bætti hann við, en í kjölfarið segist hann hafa dottið af hjólinu.
Leno lá á sjúkrahúsi í tíu daga vegna brunasára á andliti, brjóstkassa og höndum. Hann segir stíflaða leiðslu í vél á bíl hafa valdið því að það kviknaði í andlitinu á honum, en hann hafi verið að skoða leiðsluna þegar atvikið átti sér stað.