Maður í Singapúr hefur kært konu fyrir að hafa valdið honum andlegu áfalli þegar hún vildi ekki vera kærastan hans.
K. Kawshigan og Nora Tan kynntust 2016 og urðu vinir, en fljótlega varð ljóst að þau höfðu ólíkar hugmyndir um eðli sambandsins. Þegar Tan hafnaði Kawshigan hótaði hann að fara í mál við hana, en hætti við þegar hún féllst á að fara með honum til hjónabandsráðgjafa.
Sem hún og gerði í eitt og hálft ár, samkvæmt umfjöllun The Straits Times.
Hvorki gekk né rak í ráðgjöfinni, og þegar Tan sleit samskiptunum lagði Kawshigan fram tvær kærur. Aðra fyrir að skaða fyrirmyndar orðspor hans og valda honum andlegu álagi, og hina fyrir að hætta að mæta í ráðgjöf og standa þar með ekki við samkomulag um að reyna að bæta sambandið. Alls fór Kawshigan fram á sem samsvarar um 320 milljónum króna í skaðabætur.
Seinni kærunni var vísað frá dómi um helgina, og hin verður tekin fyrir 9. þessa mánaðar.