Laufey og sendiherra Japan gagnrýna sýningu óperunnar

Hér má sjá hluta af leikmyndinni sem Laufey gagnrýnir.
Hér má sjá hluta af leikmyndinni sem Laufey gagnrýnir. Samsett mynd

Tónlistarkonan Laufey tjáði sig um sýningu Íslensku óper­unn­ar Madama Butterfly í tísti í gærkvöldi. Hún gagnrýndi uppsetninguna og sagðist vera móðguð. Meðal þeirra sem skrifuðu athugasemd við tíst Laufeyjar var Suzuki Ryotaro, sendiherra Japans á Íslandi.

Laufey segir í tístinu að í sýningunni séu leikarar í hefðbundnum japönskum klæðnaði, með svartar hárkollur, álímd yfirvaraskegg og teygð augu. Þá sé sviðsmyndin skreytt kínversku letri, ekki japönsku. 

„Sem er afar óviðeigandi þar sem að óperan gerist í Japan og hefur ekkert með Kína að gera.“

Þá minnist hún á að Íslenska óperan neiti að hún stundi menningarnám eða rasisma af nokkru tagi og ætli ekki að breyta sýningunni á nokkurn hátt. 

Í gærkvöldi var þó greint frá því á mbl.is að gripið hefði verið til mála­miðlana varðandi farða leikara í ann­arri sýn­ingu upp­setn­ing­ar­inn­ar um helg­ina. 

Ógnvekjandi rasismi enn að eiga sér stað

„Sem ein af fáum Asíubúum sem hefur alist upp á Íslandi verð ég að segja að það er særandi að lesa í gegnum langa spjallþræði þar sem fólk kemur Íslensku óperunni til varnar. Þeir sem verja óperuna eru allir Íslendingar sem hafa ekki upplifað það að vera útlendingur á Íslandi,“ segir í tísti Laufeyjar. 

Þá minnist hún á að hún sé einungis hálf-kínversk, en samt verði hún fyrir því að fólk togi augu sín upp og píri þau, kalli hana „ching chong“ og geri grín að kínverska nafninu hennar.

Hún segir það vera ógnvekjandi að svoleiðis sé enn að gerast á Íslandi árið 2023. 

Í gærkvöldi var greint frá því að gripið hefði verið …
Í gærkvöldi var greint frá því að gripið hefði verið til mála­miðlana varðandi farða leikara í ann­arri sýn­ingu upp­setn­ing­ar­inn­ar um helg­ina. Ljósmynd/Anton Brink

Laufey segir marga Íslendinga nota þau rök að asísku vinir þeirra hafi ekki móðgast vegna sýningarinnar og þess vegna ætti enginn að móðgast. 

„Ég er móðguð,“ segir Laufey. 

Illa rannsökuð uppsetning

Að lokum segist Laufey vera stolt af því að vera Íslendingur og elska landið sitt en að sýningin sýni virðingarleysi og að henni sé brugðið. 

„Það þarf að vera meiri umræða um kynþátt og fjölbreytni á Íslandi,“ segir hún og bætir við að ekki eigi að setja upp sýningu með asískum hlutverkum ef ekki sé hægt að ráða asíska leikara. 

„Ég styð ummæli þín heilshugar. Óperan á að gerast í Japan, en í þessari illa rannsökuðu uppsetningu hlýtur Pinkerton að hafa lent í einhverjum hliðstæðum heimi! Þetta er ekki einungis virðingarleysi gagnvart Kínverjum, heldur gagnvart öllum Asíubúum yfir höfuð,“ tísti Ryotaro sendiherra. 

Laufey þakkaði sendiherranum fyrir tístið og sagði það vera þýðingarmikið. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú heldur af þér með að gera eitthvað. Leyfðu sjálfstraustinu að njóta sín, því það er þitt bezta vopn.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar