Undirbúningur er hafinn að þremur nýjum Star Wars kvikmyndum. Fyrsta kvikmyndin í þríleiknum mun koma út árið 2025 en þetta kemur fram í tilkynningu frá framleiðslufyrirtæki kvikmyndanna góðkunnugu Lucasfilm.
Sharmeen Obaid-Chinoy mun verða fyrsta konan til að leikstýra Stjörnustríðskvikmynd. Obaid-Chinoy fæddist í Pakistan og er tvöfaldur óskarsverðlaunahafi en hún vann Óskarinn árið 2012 og 2016 fyrir tvær stuttar heimildarmyndir um ofbeldi gegn konum í Pakistan.
Hún mun koma til með að leikstýra fyrstu kvikmyndinni í væntanlegum þríleik en sagan mun halda áfram fimmtán árum eftir síðasta þríleik. Mun breska leikkonan Daisy Ridley því snúa aftur sem Rey sem hún lék eftirminnilega í síðasta þríleik sem hlaut þó töluverða slæma dóma bæði frá gagnrýnendum og aðdáendum.
Fyrsta kvikmyndin munu fjalla um tilraunir Rey til að endurvekja Jedi-hreyfinguna. Kathleen Kennedy, forstjóri Lucasfilm sem var keypt af Disney árið 2012, segir að hver kvikmynd mun taka fyrir nýjan tíma í Stjörnustríðsheiminum. Hver mynd mun þar af auki vera með nýjan leikstjóra.
James Mangold mun koma til með að leikstýra annarri kvikmyndinni úr nýja þríleiknum en hann hefur tvisvar verið tilnefndur til Óskarsins fyrir kvikmyndirnar Ford V Ferrari og Logan. Nýjast mynd Mangold er fimmta myndin um ævintýramanninn Indiana Jones, leikinn af Harrison Ford, en hún er væntanleg í bíó í júní á þessu ári.
Stjörnustríðskvikmyndin sem Mangold mun koma til með að leikstýra mun gerast þúsundum ára áður en fyrsta myndin gerist og fjallar um upphaf Jedi-reglunnar.
Síðasta kvikmyndin í þríleiknum verður leikstýrt af Dave Filoni sem meðal annars framleiddi geysivinsælu Stjörnustríðsþættina The Mandalorian.