Harry Bretaprins og Meghan hertogaynja af Sussex vildu fá far með flugvél Joes Bidens Bandaríkjaforseta aftur til Bandaríkjanna eftir útför Elísabetar Englandsdrottningar, en beiðni þeirra var hafnað af Hvíta húsinu.
Ástæðan var sú að forsvarsmenn Hvíta hússins vildu ekki valda óþarfa uppnámi. Forseta Bandaríkjanna er heimilt að bjóða hverjum sem er að fljúga með sér en spurning hefði verið hver myndi borga fyrir hertogahjónin, þar sem þau eru ekki bandarískir embættismenn.
Samkvæmt heimildum breska miðilsins Daily Mail er talið að beiðnin hafi verið hluti af herferð hjónanna til að ná pólitískum ítökum í Bandaríkjunum, eftir að þau fluttust búferlum til Kaliforníu. Hertogaynjan talaði meðal annars opinberlega fyrir launuðu fjölskylduorlofi bandarískra þingmanna og á að hafa unnið á bak við tjöldin að því að tengjast Biden nánum böndum, miðað við samtöl Daily Mail við núverandi og fyrrverandi embættismenn Biden-stjórnarinnar og bresku ríkisstjórnarinnar.
Harry og Meghan voru stödd í Bretlandi vegna góðgerðarstarfa þegar drottningin lést og dvöldu í landinu fram yfir útför hennar.