Stóðu þeir með henni?

​Tammy Wynette lést árið 1998, aðeins 55 ára gömul. Hún …
​Tammy Wynette lést árið 1998, aðeins 55 ára gömul. Hún hafði þá lengi glímt við vanheilsu og lyfjafíkn. Reuters

Hefðuð þið spurt mig um Tammy Wynette fyrir fáeinum vikum hefði mér ábyggilega bara komið í hug ein setning, öllu heldur titill á lagi, sem hvert mannsbarn á þessari jörðu þekkir, Stand By Your Man. Það er mjög innilega samofið þessari ástsælu sveitasöngkonu frá Bandaríkjunum. Einkennislag, eins og þar stendur.

Núna er ég hins vegar búinn að sjá leikinn myndaflokk, George & Tammy, sem finna má í Sjónvarpi Símans Premium og fjallar um hjónaband og samstarf Tammyjar við hinn vinsæla sveitasöngvara George Jones. Þannig að ég stend talsvert betur að vígi. Og heita má öfugsnúið að téð tónsmíð standi með svona afgerandi hætti upp úr enda átti Tammy drjúgan þátt í því, ásamt Lorettu Lynn, að rjúfa einokun karla í kántríinu og koma sjónarhorni kvenna rækilega á framfæri.

Öðrum eiginmönnum Tammyjar bregður einnig fyrir í þáttunum og synd væri að segja, af þeirri frásögn að dæma, að þeir hafi átt skilið að hún stæði með þeim gegnum þykkt og þunnt.

 

Þurfti undanþágu til að giftast

Svo mikið lá á að giftast þeim fyrsta, Euple Byrd, í Itawamba-sýslu í Mississippi, að Tammy þurfti að fá undanþágu frá lögum enda ekki nema 17 ára. Faðir hennar var þá fallinn frá en móðirin vildi ekki heyra á hjónaband minnst og rak Tammy að heiman. Afi hennar tók hins vegar upp penna og ábyrgðist gjörninginn. Byrd barnaði Tammy í akkorði og 22 ára var hún komin með þrjú börn upp á arminn, eiginlega fjögur með bónda sínum, sem hélst illa á atvinnu. Þá hafði hann enga trú á tónlistarbrölti spúsunnar. „Láttu þig dreyma, elskan. Láttu þig dreyma,“ ku hann hafa sagt. Löngu eftir að þau voru skilin mun Byrd hafa sótt tónleika hjá Tammy og hitt hana að máli á eftir og beðið um eiginhandaráritun. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað hún setti þar á blað. „Láttu þig dreyma, elskan. Láttu þig dreyma. Kveðja, Tammy.“​

​Jessica Chastain og Michael Shannon, sem leika Tammy og George …
​Jessica Chastain og Michael Shannon, sem leika Tammy og George í myndaflokknum um þau, með Georgette Jones, dóttur þeirra, á milli sín. AFP/Lisa O'Connor


Á ýmsu gekk í hjónabandinu og Tammy var til að mynda einu sinni lögð inn á geðdeild eftir að hafa fengið taugaáfall, þar sem hún fékk 12 umganga af raflosti. Takk fyrir! Þegar hún vildi skilja við Byrd reis móðir hennar hins vegar upp og mótmælti. Sú sama og lagðist gegn ráðahagnum áður. Ákveddu þig, kona! Tammy flúði þá með dæturnar þrjár til þeirrar frægu borgar Birmingham, Alabama, og tókst á endanum að slíta sig frá Byrd 1965, þá 23 ára.

Sama ár flutti Tammy búferlum til Nashville, Tennessee, til að freista gæfunnar í tónlistinni. Meðan þær dæturnar bjuggu þar á móteli kynntist hún starfsmanni sem einnig var að reyna að hasla sér völl í tónlistinni, Don Chapel. Þau gengu í heilagt hjónaband 1967. Á ýmsu gekk og Tammy sakaði Chapel síðar í endurminningum sínum um að hafa tekið og selt nektarmyndir af henni meðan þau voru saman. Hann hafnaði alla tíð þeim ásökunum og höfðaði meira að segja mál á hendur Tammy.

Ólöglegt hjónaband

Eftir komuna til Nashville kynntist Tammy einum dáðasta sveitasöngvara Bandaríkjanna, George Jones, sem hún hafði sjálf mikið dálæti á. Þau drógust hvort að öðru og á endanum sótti Jones hana beinlínis heim til þeirra Chapels. Það atriði í þáttunum er eftirminnilegt. Tammy skildi í framhaldinu við Chapel og gekk að eiga Jones. Sú athöfn tafðist þó vegna þess að hjónaband Tammyjar og Chapels var ólöglegt, þar sem þau höfðu gifst of fljótt eftir að hún skildi við Byrd. Erfitt að skilja við mann sem maður er ekki giftur. Allir pappírar voru þó á endanum gildir.

Það samband varð vægast sagt stormasamt enda Jones svaðblautur og afbrigðilega vondur með víni. Greip jafnvel til skotvopna. Í eitt skipti faldi Tammy lyklana að fjölmörgum bifreiðum þeirra hjóna til að koma í veg fyrir að Jones æki undir áhrifum. Hann dó þó ekki ráðalaus, spólaði af stað á sláttubíl heimilisins – og hélt þráðbeint á barinn, þannig lagað. Hann þurrkaði sig upp inn á milli en féll alltaf aftur. Af myndaflokknum að dæma mun hjartað þó hafa verið nálægt því að vera á réttum stað – þegar kappinn var allsgáður. Þau áttu eina dóttur saman, Georgette, en téður myndaflokkur byggist einmitt á endurminningum hennar.

Nánar er fjallað um Tammy Wynette, hjónabönd hennar og líf í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Sýndu öðrum tillitssemi og umburðarlyndi og þú munt fá þá framkomu endurgoldna þúsundfalt. Lærðu af reynslunni og mundu að ekki hafa allir sömu kímnigáfu og þú.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Kathryn Hughes
2
Torill Thorup
3
Steindór Ívarsson
5
Birgitta H. Halldórsdóttir