Margrét Þórhildur Danadrottning hefur ákveðið að afsala sér völdum. Þetta tilkynnti hún í nýársávarpi sínu í dag.
„Ég hef ákveðið að nú sé rétti tíminn,“ sagði drottningin en danska ríkisútvarpið greinir frá.
„Þann 14. janúar 2024, 52 árum eftir að ég fylgdi í spor míns heittelskaða föður [Friðriks IX] mun ég stíga til hliðar sem Danadrottning og láta Friðriki krónprins hásætið eftir.“
Drottningin minntist á í ræðu sinni að hún hefði nýlega komið úr bakaðgerð fyrr á árinu sem hafi fengið hana til þess að velta fyrir sér hvort „tíminn væri ekki kominn til að fela næstu kynslóð ábyrgðina“.
„Tíminn líður og sársaukinn eykst. Maður ræður ekki lengur við það sama og maður gerði árum áður,“ sagði hún.
Eins og fyrr segir mun Friðrik X krónprins taka við af drottningunni sem hefur borið þann heiðurstitill í 52 ár, frá árinu 1972.
Friðrik er elsti sonur drottningarinnar, 55 ára gamall. Eiginkona hans er Mary krónprinsessa.
Fréttin hefur verið uppfærð.