Íslandi er nú spáð 2. sæti í Eurovision-söngvakeppninni sem haldin verður í Malmö í Svíþjóð í maí.
Mikil hreyfing hefur verið í veðbönkum í dag í kjölfar þeirra fregna að Palestínumaðurinn Bashar Murad kynni að taka þátt í Söngvakeppni sjónvarpsins.
Í gærkvöldi var Ísland komið upp í 8. sæti, í hádeginu var Ísland svo í 3. sæti. Nú hefur Bretland, sem var spáð 2. sæti í keppninni, fallið niður um eitt sæti.
Ísrael er enn spáð 7. sæti. Úkraínu er sem fyrr spáð sigri.
Af þremur efstu löndunum hefur aðeins Bretland valið framlag sitt í keppnina, en fæst þátttökulönd hafa valið framlag sitt.
Greint var frá því gær að Palestínumaðurinn Bashar Murad yrði meðal þátttakenda í Söngvakeppni sjónvarpsins.
Fleiri en 500 tónlistarmenn hér á landi hafa krafist þess að Ísland dragi sig út úr Eurovision, vegna þátttöku Ísraels í keppninni, og vilja þannig sýna afstöðu gegn árásum Ísraelshers á Gasasvæðið.
Ríkisútvarpið svaraði því í vikunni með þeim hætti að söngvakeppni sjónvarpsins er nú sögð aftengd sjálfri Eurovision-keppninni, með þeim hætti að sigurvegari keppninnar þurfi ekki endilega að taka þátt í Eurovision.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri sagði í samtali við mbl.is að sú ákvörðun væri þó á endanum alltaf á herðum sjálfs útvarpsins.
Kynnt verður um helgina hvaða keppendur munu taka þátt í Söngvakeppnini í ár.