Laufeyju Lín var fagnað með hrópum og klöppum þegar hún steig á svið í Lausanne í Sviss í kvöld. Uppselt hafði verið á tónleikana í The Docks í marga mánuði og var stappað í húsinu. Áhorfendur voru fullkomlega með á nótunum og sungu með frá fyrsta tóni.
Það var greinilegt að áhorfendur þekktu vel til tónlistar Laufeyjar. Oft þarf hvatningu til að fá gesti til að taka undir, en þess þurfti ekki í gærkvöldi. Fólk í salnum tók undir ótilhvatt, virtist kunna alla texta utan að og stundum mátti vart heyra í söngkonunni.
Það er ljóst að Laufey nýtur sín vel á sviðinu og hún nær sterku sambandi við áhorfendur. Hún talaði á persónulegum nótum, en upplýsti líka að töskunni hennar hefði verið stolið í lest á Ítalíu í fyrradag og velti fyrir sér hvernig upplitið yrði á þjófinum þegar hann opnaði hana og við blöstu snyrtivörur, nærföt og bréf frá aðdáendum.
Laufey söng og spilaði jöfnum höndum á gítar, selló og píanó og þegar tvíburasystir hennar, Júnía, birtist á sviðinu til að spila á fiðlu ætlaði allt um koll að keyra.
Tónleikarnir voru bornir upp af lögunum á plötu hennar Bewitched, en eitt af uppklappslögunum var óútgefna lagið Goddess, sem kemur út 6. mars að því er kemur fram á Instagram-reikningi hennar. Þegar hún kynnti lagið sagði hún að það væri það heiðarlegasta sem hún hefði samið til þessa.
Laufey kom til Sviss frá tónleikahaldi á Ítalíu og héðan er ferðinni heitið til Kölnar þar sem hún spilar á þriðjudag, daginn eftir verður hún í Amsterdam og um helgina, 8., 9. og 10. mars, spilar hún í Reykjavík, áður en hún heldur aftur út í heim.