Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að fokið hafi í sig vegna gríns Gísla Marteins Baldurssonar í þættinum Vikan á Ríkisútvarpinu í gærkvöld.
Í færslu á Facebook-síðu sinni greinir Einar frá því að röng upptaka hafi verið send út í upphafi veðurfregna í kvöldfréttum sjónvarpsins í gær. Þar hafi Hrafn Guðmundsson veðurfræðingur raðað kortum sínum í ranga röð og beðið um í útsendingunni að fá að byrja upp á nýtt.
„Getur alltaf komið fyrir og í stað þess að RÚV biðji hann kurteislega afsökunar (sem tæknifólkið í útsendingu hefur e.t.v gert?), kemur fjölmiðillinn sama kvöld og dregur stólpagrín að Hrafni!“ skrifar Einar.
Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur er á meðal þeirra sem hafa brugðist við færslu Einars, en hún skrifar:
„Það fer að verða rannsóknarefni hversu oft þetta gerist hjá RÚV að þar sé send út vitlaus upptaka. Óheiðarlegt að gera grín að Hrafni sem hefur enga stjórn á málinu.“
Einar kveðst einnig ósáttur við að Gísli hafi ekki nefnt Hrafn á nafn, heldur kallað hann „veðurfræðinginn“. „Í því felst ákveðin smættun á þeim sem um er fjallað,“ skrifar hann.
Að lokum segir Einar þau Hrafn Guðmundsson, Birtu Líf Kristinsdóttur, Theódór Hervarsson, Kristínu Hermannsdóttur og Sigurð Jónsson eiga þakkir skildar fyrir að miðla veðurspám til landsmanna.