Var hún of elsk að nasistum?

Ben Mendelsohn og Juliette Binoche leika Dior og Chanel í …
Ben Mendelsohn og Juliette Binoche leika Dior og Chanel í The New Look. AFP/Rob Kim

„Það er sannleikurinn og svo er annar sannleikur sem liggur undir honum.“

Á þennan veg svaraði tískukóngurinn Christian Dior fyrirspurn nemanda við Sorbonne-háskóla í París árið 1955, þegar hann réði lögum og lofum í tískuheiminum. Spurt var hvers vegna hann hefði haldið áfram að hanna föt fyrir eiginkonur og unnustur nasista meðan á hernámi Frakklands stóð í seinna stríði á sama tíma og helsti keppinauturinn, Coco Chanel, brá slagbrandi fyrir dyr tískuhúss síns.

Þetta kemur fram í flunkunýjum myndaflokki, The New Look, sem efnisveitan Apple TV+ hefur hafið sýningar á. Um er að ræða skáldskap, byggðan á sönnum atburðum, en flokkurinn hefur enn og aftur vakið upp vangaveltur um hegðun tískukóngsins og -drottningarinnar í stríðinu.

Allan tímann trúr

Sannleikur Diors er einfaldari, um það er ekki deilt. Hann var Frakklandi allan tímann trúr. Hélt bara áfram að hanna og framleiða föt fyrir nasista til að hafa fyrir salti í grautinn – og hreinlega lifa af. Peningana notaði hann síðan til að styðja við bakið á andspyrnuhreyfingu systur sinnar, Catherine, sem á endanum var tekin höndum og pyntuð í fangabúðum nasista. Saga hennar fær víst svolítið vægi í þáttunum en hún er líklega ekki mörgum kunn.

Menn greinir meira á um hegðun Chanel í stríðinu og hafa ýmsar túlkanir verið á kreiki. Fyrir liggur að hún átti í langvarandi ástarsambandi við njósnara nasista, Hans Günther von Dincklage, sem var betur þekktur sem Spatz, og hann og hans nótar hjálpuðu henni að fá frænda hennar, André, sem var Chanel afar kær, leystan úr haldi Þjóðverja, en hann barðist með franska hernum.

Binoche í hlutverki Coco Chanel í þáttunum.
Binoche í hlutverki Coco Chanel í þáttunum. Skjáskot úr þættinum.

Þá er óumdeilt að Chanel átti aðild að hinni kyndugu Módelhatta-aðgerð. Þá fékk framtakssamur þýskur hershöfðingi Chanel til að ferðast til hinnar hlutlausu Madrídar í þeirri von að koma mætti skilaboðum til hennar gamla vinar Winstons Churchills um að binda enda á stríðið – framhjá sjálfum Hitler. Þá mun hún hafa reynt án árangurs að beita aríalögum nasista, sem komu í veg fyrir að gyðingar kæmu að rekstri fyrirtækja, til að ná fullum völdum í ilmvatnsfyrirtæki sínu af meðeigendunum sem voru gyðingar.

Hliðholl nasistum

Sumir sem sökkt hafa sér niður í líf Chanel eru á þeim buxunum að hún hafi verið hliðholl nasistum, þeirra á meðal ævisöguhöfundurinn Rhonda Garelick. Í bók sinni Mademoiselle: Coco Chanel and the Pulse of History (2014), segir hún Chanel líklega hafa trúað á málstað nasista, auk þess sem hentistefna, eiginhagsmunir og gyðingaandúð hafi drifið hana áfram. „Þjóðernisást hafði alltaf minni þýðingu fyrir hana en völd,“ skrifar Garelick.

Justine Picardie, höfundur Coco Chanel: The Legend and the Life, sem kom út í endurskoðaðri útgáfu í fyrra, segir hins vegar í samtali við vefsíðuna BBC Culture að það sé einföldun að skilgeina Chanel sem nasista. Til þess segir hún hana hafa verið of elska að Bretum og frelsinu, þó að hún hafi vissulega nýtt sér sambönd við nasista. Picardie segir Módelhatta-aðgerðina forvitnilega en að hún skilgreini ekki Chanel fyrir fullt og fast.

Nánar er fjallað um The New Look í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinirnir eru þér mikilvægari en ella um þessar mundir, reyndu að gefa þér tíma til þess að hitta þá. Ekki fara út af vegi dyggðarinnar í lífsstílnum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Carla Kovach
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Vinirnir eru þér mikilvægari en ella um þessar mundir, reyndu að gefa þér tíma til þess að hitta þá. Ekki fara út af vegi dyggðarinnar í lífsstílnum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Torill Thorup
2
Kathryn Hughes
3
Steindór Ívarsson
4
Carla Kovach
5
Birgitta H. Halldórsdóttir
Loka