Aron Már Ólafsson leikari þurfti að fá súrefni eftir að það kviknaði í sinu við sumarbústað hans og systur hans, Birtu Lífar Ólafsdóttur, markaðsfræðings og hlaðvarpsstjórnanda.
Aron Már og Birta Líf halda úti Instagram-síðunni Systkinasumó og greindu þar frá brunanum í dag.
„Það komu þrír slökkviliðsbílar og við kveiktum næstum því í öllu sumarbústaðalandinu hérna,“ sagði Aron og útskýrði tildrög brunans.
Hann og pabbi þeirra voru að skera niður tré í kringum bústaðinn til þess að draga úr eldhættu.
Til þess notuðust þeir við vélsög. Blossi myndaðist svo í mosa útfrá söginni.
„Svo allt í einu sjáum við eld á einum stað og slökkvum hann. Svo allt í einu er kominn eldur þarna, og þarna og,“ sagði Aron Már og smellti fingri.
Hann þurfti að fá súrefni í sjúkrabíl sökum reyksins sem myndaðist en slökkviliðið náði niðurlögum eldsins síðdegis. Systkinin þökkuðu slökkviliðinu fyrir vel unnin störf.