Umkringd sögum af Ísfólkinu í Góða hirðinum leyndist fágæt bók. Álíka eintak af bókinni seldist í fyrra á 33.000 krónur á uppboði hjá Gallerí Fold.
Vökult auga Fríðu Þorkelsdóttur, bókmenntafræðings og meistaranema í ritlist, tók eftir bókinni sem skar sig úr hópnum. Bókin var án kjalar og við nánari skoðun reyndist hún vera ljóðabók Dags Sigurðssonar, Níðstöng hin meiri, og var hún árituð af sjálfu skáldinu.
„Ég tók bara andköf, ég var ein þarna í Góða hirðinum. Ég veit ekki hvað fólk hefur haldið um mig sem var þarna á staðnum,“ segir Fríða í samtali við mbl.is.
Áritað eintak af sama verki fór á 33.000 krónur í Gallerí Fold í fyrra en Fríða bendir á að hennar eintak sé ekki einungis áritað heldur stílar skáldið það á móður sína og áritar það á tveimur stöðum, auk þess sem hann hefur leiðrétt prentvillur í bókinni.
„Það eru mikil verðmæti í þessu ekki bara peningaleg heldur einnig menningarleg, enda margar gefnar út í litlu upplagi,“ segir Fríða en hún kveðst vera mikill ljóðabókasafnari:
„Þetta er engin tilviljun ég er mikill ljóðabókasafnari og fer á alla nytjamarkaði og öll gjafaborð mjög reglulega,“ segir Fríða og bendir á að iðulega séu það bækurnar með látlaust útlit sem veki athygli hennar.
Þannig var einmitt útlit ljóðabókar Dags: „Það var ekkert á kilinum og ég skil vel að þetta fari fram hjá fólki og þá jafnvel erfingjum sem eru að fara í gegnum dánarbú og láta þetta frá sér.“
„Það er ástæðan fyrir því að ég er að safna þessu. Ég vil halda þessu til haga og ég vil ekki að þetta endi á Sorpu,“ segir hún.
Í því samhengi kveðst hún hafa heyrt af því að bækur sem séu gefnar til nytjagáma Sorpu endi margar hverjar í pappírsruslinu:
„Þegar ég heyrði þetta fékk ég bara sting í hjartað.“
Samkvæmt þeim sögum sem Fríða hefur eftir er fjöldi bóka sem enda í nytjagámum Sorpu slíkur að erfitt reynist að sigta í gegnum fjöldann:
„Þá auðvitað gerist það að svona verðmæti slæðast með innan um Ísfólkið í Góða hirðinum,“ segir hún en þannig kom hún að verki Dags, bókar án kjalar, innan um fjölda sagna um Ísfólkið.